Héraðssaksóknari hefur ákært erlendan mann, sem býr á Grensásvegi í Reykjavík, fyrir brot gegn lögreglulögum og brot gegn valdstjórninni.
Ákært er vegna atviks sem átti sér stað föstudaginn 22. desember árið 2023, í landgangi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Er maðurinn sakaður um að hafa ekki hlýtt ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að fylgja sér og að hafa slegið með krepptum hnefa í vinstra kinnbein lögreglumanns, þegar lögreglumaðurinn var að reisa hann við, með þeim afleiðingum að lögreglumaðurinn kenndi til eymsla yfir kinnbeininu. Einnig er hann sakaður um að hafa reynt að skalla annan lögreglumann sem hélt honum og beið aðstoðar.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Málið var þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur 29. nóvember síðastliðinn.