Landsliðsmaðurinn Logi Tómasson var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Logi leikur með norska úrvalsdeildarliðinu Stromsgodset og hefur gert afar vel á um einu og hálfu ári þar. Hann fór til félagsins frá Víkingi hér heima þegar hann var að verða 23 ára gamall.
„Þetta sýnir bara að það er engin ein leið í þessu. Þegar ég var 19-20 átti ég ekki breik í einhverja atvinnumennsku því hausinn minn bara var ekki þar. Þegar ég setti hausinn 100 prósent á boltann fór þetta að rúlla og það voru líka alvöru menn í Víkinni sem hjálpuðu mér með það,“ sagði Logi.
Hann segir Kára Árnason og Sölva Geir Ottesen hafa hjálpað sér mikið í Víkinni.
„Kári og Sölvi voru bara að reyna að skóla mig til. Til að byrja með nennti ég ekkert að hlusta en svo þegar ég setti hausinn á þetta ræddi ég við Sölva á hverjum degi um hvað ég gæti bætt í varnarleiknum.
Það er ekkert hver sem er sem fær svona skólun. Þess vegna myndi ég mæla með því fyrir varnarmenn að fara í Víking ef það er í boði. Þú munt bæta þig svo mikið í öllum þáttum leiksins.“
Logi, sem í dag er fastamaður í landsliðinu, var spurður að því hvenær hann áttaði sig á því að hann gæti farið í atvinnumennsku.
„Eftir 2022 tímabilið áttaði ég mig á því að ef ég myndi laga ákveðna hluti væri ég að fara út. Þá ákvað ég að gefa mig allan í þetta og sýna fólki hvað ég gæti gert.“
Umræðan í heild er í spilaranum.
Íþróttavikan er í boði Bola léttöl, Lengjunnar og Happy Hydrate