fbpx
Miðvikudagur 05.febrúar 2025
Fréttir

Viktoría komin inn á gistiheimili í Tbilisi en allt í óvissu – „Það átti bara að dömpa henni út af Schengen-svæðinu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 6. desember 2024 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hún er komin inn á lítið gistiheimili í Tbilisi. Dóttir mín sá um að panta fyrir hana. En það eru engin svör neinstaðar, það bara halda allir að sér höndum,“ segir Gunnlaugur Gestsson, velgjörðarmaður Viktoríu Þórunnar, sem flutt var nauðungarflutningi frá Íslandi fyrr í vikunni og skilin eftir á flugvellinum í Tbilisi í Georgíu. Viktoría, sem hefur dvalist á Íslandi undanfarin sjö ár, átti samkvæmt úrskurði Útlendingastofnunar að fara til Rússlands en íslensk yfirvöld virðast ekki hafa treyst sér til að fara þangað. Íslendingar lokuðu sendiráði sínu í Moskvu í kjölfar innrásar Rússlands inn í Úkraínu.

Sjá einnig: Viktoría handtekin og fjórir fílefldir lögreglumenn fylgdu henni úr landi – „Þetta er ein besta sál sem ég hef kynnst“

Viktoría hefur undanfarin fjögur ár búið á heimili Gunnlaugs og dóttur hans. Hún hefur unnið að landgræðslu og dýravernd á Íslandi en ekki tekist að fá hér ríkisborgararétt eða dvalarleyfi þrátt fyrir nokkrar umsóknir. Hún var áður gift íslenskum manni en flúði hann vegna ofbeldis.

Viktoríu var brottvísað frá landinu fyrr í vikunni og flogið til Parísar í fylgd fjögurra lögreglumanna. Þaðan var henni flogið til Tbilisi í Georgíu og skilin eftr á flugvellinum þar. Hún hefur engin tengsl við landið.

„Ég er búinn að ítreka fyrirspurnir til Útlendingastofnunar og óska skýringa. Því var svarað með því að ég væri ekki með umboð fyrir Viktoríu. Ég hef áður verið í samskiptum við Útlendingastofnun vegna hennar árin 2020, 2021 og 2022. Þá voru þeir að svara tölvupóstum beint til mín. En það getur verið að út af nýju lögunum þurfi þeir skriflegt umboð. Þannig að ég sendi þeim í gær skriflegt umboð frá Viktoríu um að ég gæti spurt um öll hennar mál sem snúa að þessu en það eru engin svör komin frá Útlendingastofnun,“ segir Gunnlaugur.

Gunnlaugu og dóttur hans hefur tekist að koma dálitlum fjármunum til Viktoríu og útvega henni gistingu á litlu gistiheimili í Tbilisi. Algjör óvissa er um framhaldið. Aðspurður segir Gunnlaugur að ekkert bendi til þess að flutningur á Viktoríu til Rússlands standi fyrir dyrum.

„Það er ekkert í spilunum. Hún er hreinlega bara skilin eftir í fötunum sem hún stendur í, í flugstöðinni í Tbilisi, það var ekki einu sinni keyptur fyrir hana flugmiði, það var engin fylgd að vél, þeir höfðu engin völd þarna til að standa í þessu. Það er eins og markmiðið hafi bara verið að dömpa henni út af Schengen-svæðinu, bara einhvers staðar. Og ég er búinn að komast að því að þeir voru að færa einhvern mann til Georgíu, senda hann úr landi og þeir hafa ákveðið að dömpa henni með bara í leiðinni. Þar er um að ræða einhvern mann sem er búsettur í Georgíu og var hann í sömu flugvéli.“

Íhugar næstu skref

Gunnlaugur segir að lögreglufulltrúi hafi tilkynnt Viktoríu við viðskilnaðinn í Tbilisi að hún væri núna komin í endurkomubann til Schengen-svæðisins. Þetta er hins vegar ekki staðfest og segir Gunnlaugur Útlendingastofnun ekki hafa svarað fyrirspurnum um málið.

„Ég er að íhuga hvað við gerum næst og liggur beinast við að reyna að fjármagna einhvern mannréttindalögmann til að fara með málið. Einnig að kæra til Umboðsmanns alþingis, það hefur komið upp hugmynd um að senda erindi til forseta og það er svona ýmislegt á teikniborðinu og við munum ekki gefast upp og stjórnvöld munu engan frið fá fyrir mér, ég mun leita allra úrræða til að vinda ofan af þessu máli,“ segir Gunnlaugur.

Hann segir marga hafa haft samband við hann og b0ðið fram stuðning. „Fólk hefur hreint og beint boðið fram fjárhagsaðstoð en ég hef ekki getað þegið hana, ég get ekki verið neinn milliliður að taka við peningum, ég hef verið að íhuga hvernig ætti að snúa sér í því ef henni er veittur fjárhagsstuðningur, það er eitthvað sem þarf að vera uppi á borðum,“ segir Gunnlaugur sem ætlar að halda ótrauður áfram að berjast fyrir réttindum Viktoríu.

Fréttinni hefur verið breytt

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Neytendastofa hirtir vinsælan áhrifavald

Neytendastofa hirtir vinsælan áhrifavald
Fréttir
Í gær

Félagarnir af Kjarnanum sameinast hjá Samfylkingunni

Félagarnir af Kjarnanum sameinast hjá Samfylkingunni