Hafiði hugsað út í hvað boð og bönn eru í sjálfu sér makalaus fyrirbæri? Allar reglur og lög heimsins eru skrifuð af fólki, fólki sem telur sig hafa getu til að hafa vit fyrir öðrum. Reglum kyngjum við gjarnan möglunarlaust og án mikilla athugasemda og oft af vana þótt ekki sé alltaf bersýnilegt að reglurnar séu settar fram af manngæsku eða nokkru viti. Þegar ég var stelpa var til dæmis bannað að vera með húfur inni í skólastofum, regla sem auðvitað er rakalaust bull.
Helmingur mannkyns hefur alltaf talið að hinn helmingur mannkynsins þurfi sérstakt aðhald þegar kemur að lögum um ákvarðanarétt. Sumsé helmingur mannkynsins treystir ekki hinum helmingnum til að meta hvað rétt sé eða rangt hverju sinni. Það er umhugsunarvert.
Samkvæmt íslenskum lögum og reglum er fólki guðvelkomið að neyta áfengis og á síðustu misserum hefur aðgengi fólks að áfengi verið stóraukið. Það er ekki af ást á manneskjunum sem aðgengi er aukið því áfengisneysla skapar heilsufarsvanda á skala ólíkt öllum öðrum vímugjöfum. Áfengi verður víst seint kallað lækningalyf. Áfengisneysla veldur ótal dauðsföllum á ári hverju eða um 5% af öllum dauðsföllum á heimsvísu. Áfengisneysla er mikið rannsökuð og hefur víðtæk áhrif á mannsíkamann og dauðsföllin vegna hennar margháttuð. Vitað er að áfengisneysla veldur lifrarsjúkdómum, hjarta – og æðasjúkdómum, margfaldar hættu á slysum og óhöppum ýmiskonar, rústar fjölskyldum og tilfinningasamböndum og ákveðnar tegundir krabbameina má að auki rekja til hennar.
Ég hætti að neyta áfengis haustið 2012 og það er sennilega það eina skynsamlega sem ég hef gert um dagana því ég er fráleitt skynsemisvera. Áralangt þunglyndi hvarf eins og dögg fyrir sólu, ég fór að sofa vel um nætur, léttist um 10 kíló, lærði að standa með sjálfri mér en hef reyndar síðan ekki getað falið atferli mitt á bak við áfengisneyslu sem nýtur verulegrar velþóknunar og skilnings í samfélagi okkar. Það sem kannski er bagalegast við að hætta að drekka er sumsé það að maður situr uppi með alsgáðan sjálfan sig, minningar kýrskýrar og undanbragðaleiðum fækkar talsvert.
Á Íslandi er fjöldi fólks sem notar lækningalyf sér til heilsubótar. Lyf sem bannað er að nota á Íslandi. Það gerði minn elskulegi eiginmaður heitinn í veikindum sínum og ekkert lyf annað gat slegið á ógleði þá er fylgdi lyfjameðferðum þeim sem hann undirgekkst. Ekkert annað en þetta bannaða lyf gerði það að verkum að hann hélt bæði matarlyst og holdum svo lengi sem raun bar vitni. Og ekkert annað lyf veitti honum jafn miklar ánægju og kátínustundir og einmitt þetta ólöglega lækningalyf sem hefur fylgt manneskjunni allar götur þótt fá lækningalyf hafi notið jafn lítils sannmælis hjá þeim sem setja reglurnar.
Þetta sama lækningalyf er sérlega vinveitt þeim helmingi mannkyns sem lýtur misvitrum reglum hins helmingsins. Cannabis eða Santa Maria, eða heilög María eins og hún er kölluð meðal frumbyggjaþjóða S-Ameríku er nefnilega alveg sérlega gott verkja, kvíða-og spennustillandi lækningalyf fyrir konur. Fyrir konur sem þjást af slæmum tíðaverkjum, fyrirtíðaspennu og kannski síðast en ekki síst þeim konum sem þjást af hinum erfiða sjúkdómi Endómetríósu sem getur valdið konum svo miklum verkjum og óþægindum að lífsorka þeirra og geta til þátttöku í daglegu lífi er skert til muna.
Ef ég hefði haft grun um þetta sem yngri kona þá hefði ég sennilega getað sloppið við ótæpilegt verkjatöfluát með tilheyrandi fylgikvillum. Ég náði að finna á eigin skinni áður en ég datt úr barneign hvað Cannabis er frábært tíðaverkjalyf og hvað lítið þarf af lækningalyfinu til að draga úr ömurlegum tíðakrömpum og aldrei fann ég til nokkurrar vímu eða fíknar af þess völdum.
Ég notaði Cannabis sem lyf þá 1-2 daga mánaðarins sem voru verstir og þurfti ekki að bryðja íbúfen, paracetamol eða kódeinlyf eftir það.
Ég vildi líka að ég yngri hefði vitað að áfengisneysla skapar langvarandi hormónaójafnvægi og þar með óreglulegar blæðingar. Að áfengisneysla eykur einkenni fyrirtíðarspennu; skapsveiflna, krampa og útþenslu. Að áfengisneysla getur haft mikil áhrif á fyrirferð blæðinga, eykur líkur á ótímabærum tíðahvörfum og hefur víðtæk áhrif á frjósemi og getu kvenna til barneigna. Ég á fjögur heilbrigð börn en töluvert fleiri fósturlát að baki.
Í dag þekki ég fjölmargar konur á barneignaraldri sem nota Cannabis til verkjastillinga vegna Endómetríósu og til að stilla af sitt óútreiknanlega hormónakerfi. Allar manneskjur eru með innbyggt endókannabínóíðakerfi í líkama sínum, það er, við erum öll með mótttakara fyrir þessu aldagamla lækningalyfi og sennilega af ástæðu. Nú er vitað að þetta innbyggða kerfi hefur veruleg víðtæk áhrif á starfsemi líkama okkar.
CBD eða cannabidiol og THC tetrahydrocannabinol, þau þekktustu virku efni sem eru í lækningaplöntunni Cannabis hafa meðal annars verkjastillandi og bólgueyðandi áhrif. Lækningalyfsins Cannabis má neyta með því að reykja lauf plöntunnar en líka með inntöku olía unnum úr plöntunni. Margar konur kjósa að nota stíla í leggöng eða endaþarm með THC því þannig valda virku efnin, sem geta verið hugbreytandi ef verkjaköstin kalla á mikið THC, minni áhrifum á huga fólks. Það að leysa konur undan óhóflegu verkjatöfluáti og lamandi verkjaköstum er auðvitað hugarfarsbreytingin besta og mest aðkallandi.
Það er löngu orðið tímabært að við fylgjum nágrannaþjóðum að máli og leyfum notkun cannabis í lækningaskyni og fólki til heilsubótar. Banni á notkun lækningalyfsins þarf að aflétta.
Það þarf vitanlega líka að leyfa fullorðnu fólki að nota cannabis sér til skemmtunar því þótt efnið sé vitanlega ekki skaðlaust barnungum manneskjum, ekki frekar en áfengi. Almennt á fólk auðvitað bara að ráða því sjálft hvað það setur ofan í sig.