Forstjóri bandaríska sjúkratryggingafélagsins UnitedHealthCare var skotinn til bana á Manhattan í gær. Talið er að um launmorð sé að ræða sem hafi sérstaklega beinst gegn forstjóranum, Brian Thompson. Málið hefur vakið mikla athygli en margir hafa fagnað verknaðinum. Nú ríkir nokkur þórðargleði á samfélagsmiðlum og mikið um gálgahúmor.
Myndband úr öryggismyndavél er komið í dreifingu og þar má sjá Thompson á gangi þegar grímuklæddur byssumaður gengur ákveðið aftan að honum og skjóta hann með skammbyssu með hljóðdeyfi. Byssan virðist standa eitthvað á sér en skotmaðurinn kippir sér lítið upp við það, er fljótur að ná sér á strik og skýtur forstjórann nokkrum skotum áður en hann hleypur af vettvangi.
En hvers vegna eru margir að fagna þessum harmleik?
UnitedHealthCare er stærsti söluaðili sjúkratrygginga í Bandaríkjunum og þótti blómstra með Thompson sem leiðtoga. Sjúkratryggingakerfið í Bandaríkjunum, sem er að mestu í höndum einkaaðila á borð við UnitedHealtCare, er verulega umdeilt. Tryggingar eru rándýrar og jafnvel þeir sem telja sig vel tryggða lenda í því að fá neitun frá tryggingafélögum sínum þegar á þarf að halda.
Félagið er mjög umdeilt. Til dæmis hefur það verið sakað um að notfæra sér algrím til að neita alvarlega veikum sjúklingum um meðferð. Á árinu hefur félaginu verið stefnt fyrir dóm fyrir að hafa farið ógætilega með persónuupplýsingar skjólstæðinga sinna, sem var stefnt í hættu í netárás í febrúar og eins hefur félagið verið sakað um að hafa blekkt hluthafa með lygum, fölskum viðskiptum og fyrir að leyna mikilvægum upplýsingum um reksturinn.
Sökum þessa voru margir sem sögðust ekki fella tár yfir launmorðinu. Hér sé á ferðinni einn stærsti söluaðili sjúkratrygginga í Bandaríkjunum sem hafi gífurlegar fjárhæðir frá Bandaríkjamönnum á hverju ári en reyni samt alltaf að komast undan því að borga skjólstæðingum sínum með þeim afleiðingum að fólk hefur dáið. UnitedHealthCare sé í sérstöðu hvað varðar að synja um greiðslur, svo mikið að öldungadeildarþingmenn Demókrata vöktu sérstaka athygli á því í október með svartri skýrslu enda neita tryggingafyrirtæki að greiða reikninga að meðaltali í 16% tilvika en hjá UnitedHealthCare neita þeir í 32% tilvika.
Einn skrifaði á samfélagsmiðlinum Blusky: „Líf allra manna er heilagt svo það er óviðeigandi að hlægja þegar einhver verður fyrir alvarlegu tjóni. Það siðferðislega rétta í stöðunni er að rukka viðkomandi um milljónir.“
Annar skrifaði: „Okkur þykir það miður, en skotsár eru bara tryggð í platínu+ pakkanum okkar“
Enn annar skrifar á Reddit: „Takk fyrir að velja UnitedHealthCare fyrir þarfir þínar í heilbrigðisþjónustu. Eftir að hafa gætilega rýnt kröfuna sem var lögð fram um neyðaraðstoð þann 4. desember 2024 þykir okkur miður að tilkynna þér að beiðni þinni um greiðslu úr tryggingunum er hafnað.“
In United States, when a healthcare CEO is assassinated, everyone laughs pic.twitter.com/NuiVaSO2XM
— Rap Game Edward Bernays (@Edward__Bernays) December 4, 2024
Lögregla hefur leitað eftir aðstoð almennings við að finna byssumanninn. Mikinn gálgahúmor má finna í athugasemdum við fréttir um leitina. Þar segist fólk ekki kannast við kauða og jafnvel halda því fram að það sé enginn byssumaður á myndinni heldur sjáist þar aðeins maður falla niður eftir augljóst hjartaáfall.
Einn veltir fyrir sér hvort þetta marki kaflaskil í Bandaríkjunum. „Er þetta upphafið að því að við förum að éta þá ríku? Ef við náum þessum gaur væri áhugavert að sjá hvað vakti fyrir honum. Fleira í þessum dúr á eftir að eiga sér stað ef líf almennings fer ekki að batna.“
Me at the chemo center, before and after finding out that the CEO of my insurance company was assassinated this morning. pic.twitter.com/dlPlIm4M1T
— (((Anarch)))itect (@Anarchitect918) December 4, 2024
Ekki liggur fyrir hvers vegna Thompson var ráðinn bani. Þær kenningar sem nú ganga um netheima byggja helst á því að byssumaðurinn hafi misst einhvern kærkominn því UnitedHealthCare neitaði að borga fyrir læknismeðferð. Aðrar kenningar benda á að félagið og Thompson hafi verið til rannsóknar hjá dómsmálaráðuneytinu, grunuð um að misnota markaðsráðandi stöðu til að hamla samkeppni, og fyrir meint innherjaviðskipti. Eins mun ráðuneytið hafa haft til rannsóknar hvort UnitedHealthCare hafi misnotað opinbera tryggingakerfið, Medicare, með því að ýkja veikindi sjúklinga til að fá hærri greiðslur úr ríkissjóði – sem í gegnum tíðina hefur verið eitt af því sem andstæðingar einkareksturs í heilbrigðiskerfinu hafa varað við.
Thompson var ráðinn forstjóri árið 2021 og var á gríðarlega háum launum, en áætlað er að árstekjur hans hafi numið um 1,4 milljörðum. Hann átti að ávarpa hluthafafund á Hilton hótelinu á Manhattan skömmu eftir launamorðið. Þar ætlaði hann meðal annars að tilkynna hluthöfum um gríðarlegan hagnað félagsins, tugi billjóna króna.
Today, we mourn the death of United Healthcare CEO Brian Thompson, gunned down…. wait, I’m sorry – today we mourn the deaths of the 68,000 Americans who needlessly die each year so that insurance company execs like Brian Thompson can become multimillionaires.
— Prof Zenkus (@anthonyzenkus) December 4, 2024
Miðillinn Mint greinir frá því að á skothylkjum á vettvangi brotsins fundist áletrun. Þar stóðu orðin: neita (e.deny), verja (e.defend) og fella (e.depose).
Bent hefur verið á að þessi orð ríma ágætlega við titil bókar sem var gefin út árið 2010 um óréttlæti sjúkratryggingakerfisins en bókin kallast Delay, Deny, Defend. Þau orð vísa til þess að tryggingafélög dragi málsmeðferð sína gjarnan á langinn með því að krefja skjólstæðinga um mikið magn gagna, mikla pappírsvinnu og fleiri flækjur. Þetta verði til þess að margir gefist upp, eða látist jafnvel af veikindum sínum. Mörgum kröfum er svo bara hafnað, oft á veikum grundvelli. Loks ef sá tryggði heldur málinu til streitu þá er gripið til varna þar sem tryggingafélögin nýta sér vald sitt og yfirburði til að yfirbuga þann tryggða með rándýrum málaferlum. Höfundur bókarinnar hélt því fram að þessar þrjár aðferðir tryggingafélaganna sýni hvernig þau forgangsraða hagnaði á kostnað þess að veita þeim tryggðu réttláta málsmeðferð.
Eiginkona Thompson, Paulette, segir að manni hennar hafi áður verið hótað og mögulega hafi hótanirnar komið frá einstaklingum sem eru ósáttir við að hafa verið neitað um tryggingagreiðslur.