Í dag var tilkynnt hvaða listamenn fá úthlutað listamannalaunum árið 2025.
Sjá einnig: Þessi fá listamannalaun árið 2025 – Mánaðarlaunin 560 þúsund
Listamannalaun árið 2025 verða 560.000 kr. á mánuði. Um verktakagreiðslur er að ræða. Á ári hverju myndast jafnan mikil umræða um hverjir fengu listamannalaun og hverjir ekki, hvort þau eigi rétt á sér eða ekki, og sýnist sitt hverjum.
Fjölmargir hafa tjáð sig um listamannalaun í dag og fyrr í vikunni, leikmenn sem lærðir, þeir sem sóttu um og fengu úthlutun, þeim sem var synjað og einnig þeir sem engan rétt hafa til úthlutunar.
Svavar Knútur Kristinsson, tónlistarmaður, segist ekki hafa fengið listamannalaun í ár og á þá líklega við 2024, því hann fær 3 mánuði úthlutað 2025:
„Hvað með smiði og rafvirkja og gröfukalla? Eiga þeir bara líka að vera að fá peninga frá ríkinu?” Uuuu… já. Þeir fá fullt af peningum frá ríkinu. Það eru byggðir skólar, hjúkrunarheimili, lagðir vegir og haldið við helling af mannvirkjum á vegum hins opinbera. Svo styðjum við landbúnað með peningum frá skattborgurum svo fátækara fólk geti keypt mjólk, því annars myndi líterinn kosta 800 kall. Þau kaupir hið opinbera alveg helling af verkefnum af hugbúnaðarfyrirtækjum, auglýsingastofum og ráðgjafarfyrirtækjum. Verktakabransinn væri svipur hjá sjón án opinberra verkefna.
Verkefnatengd listamannalaun eru brot af þeim raunverulegu tekjum sem listafólk er að vinna fyrir, en þær tekjur eru yfirleitt að enda annars staðar, í bókabúðum, hjá þjónustuaðilum sem skaffa aðföng og innviði fyrir viðburði, hjá fyrirtækjum úti í bæ og hjá almenningi. Listafólkið fær yfirleitt síðast borgað. Þess vegna er innspýtingin sem felst í þessum verkefnastyrkjum svo mikilvæg. Hún endurkastast um allt hagkerfið og einnig inn í menningarlífið okkar.
En svo er auðvitað til fólk sem virðist hrjást af einhverri undarlegri minnimáttarkennd gagnvart listafólki. Fólk sem heldur að það sé eitthvað verra af því það skilur ekki einhvern listgjörning eða að allir flissi að því, „svona sveitalubba sem fattar ekki list.“ En það er bara kvíði, bara eitthvað í hausnum á viðkomandi. Það er enginn að pæla í því hvort þú sért að fíla eða ekki fíla Björk eða Yoko Ono eða tilraunaleikhús nema þú sjálfur. Þetta lið finnur sig síðan knúið til að réttlæta minnimáttarkennd sína með því að hatast við listafólk. Það er glatað. Fjölbreytni og skapandi samfélag skila okkur öllum á betri stað.
Tökum umræðuna á hærra plan og plís, droppið þessari minnimáttarkennd. Hún er engum til sóma. Ekki fékk ég listamannalaun í ár og ekki væli ég yfir því. Af því ég kann að samgleðjast öðrum. Það er rosa góður hæfileiki í lífinu.“
Felix Bergsson sótti um og var hafnað:
„Ég sótti um listamannalaun og vonaðist til að fá 3 mánuði en ég hef verið að skrifa vinsælan bókaflokk á Storytel um Ævintýri Freyju og Frikka. Ég fékk neitun. Óska okkur öllum til hamingju með stórkostlegan hóp listamanna sem fengu laun. Nú hef ég skrifað fjórar bækur í þessum flokki og sú fimmta kemur í lok árs 2025 en ég get ekki haldið áfram nema listamannalaun komi til. Þannig er veruleiki þeirra sem skrifa (barna)bækur á íslensku.
Leyfið krökkunum ykkar að tékka á Freyju og Frikka á Storytel. Ég held að þau eigi eftir að njóta þeirra í botn. Og athugið – það er bæði hægt að hlusta OG lesa sjálf. Áfram barnamenning.“
Elísabet Kristín Jökulsdóttir rithöfundur fékk höfnun:
„UM LISTAMANNALAUNIN HENNAR ELLU STÍNU.
Ég vil byrja á því að þakka fyrir öll þau dásamlegu og hvetjandi komment sem ég fékk í gær, það er ÓMETANLEGT, takk elsku vinafólk.
Það skal tekið fram að ég hef ekki fengið Listamannalaun samfellt í tuttugu ár, langflest árin 6 mánuði, stundum 3 mánuði, en síðan 2020 fékk ég 12 mánuði í 2 ár. en síðast 9 mánuði. Ég hef alltaf verið ákaflega þakklát í hvert sinn þó auðvitað ég hafi þurft að hætta eftir sex mánuði og fá mér aðra vinnu. Þá venjulega við blaðamennsku, útvarpsþáttagerð, greinaskrif, prófarkalestur eða módelstörf.
Ég hef gefið út bók á hverju ári, stundum tvær. Þær eru ekki í stórum upplögum en hafa selst vel og eru nú uppseldar bæði hjá mér og í bókabúðum.
Ég hef gefið bækur til góðgerðafélaga og lesið upp ókeypis fyrir góðgerðafélög. Og bækurnar mínar voru alltaf of ódýrar eða á verði sem fólk réði við, það var einskonar hugsjón.
Ég ól upp börnin mín sem einstæð móðir, dásamlegasta verkefni sem ég hef fengið.
Ef það skyldi gleðja einhvern í „kommentakerfinu“ (á Vísi) sem eys nú auri yfir mig sem rithöfund og aðra kollega mína, þá borga ég skatta upp á 200 þúsund á mánuði, vegna þess að í fyrsta skipti á ævinni fékk ég borgað sómasamlega fyrir metsölubækur mínar tvær. Og eins var ég svo heppin að fá borgað fyrir Saknaðarilm!!! En ég stend núna í tannviðgerðum upp á tvær miljónir, þá hef ég stutt fjölskyldumeðlim sem átti ekki fyrir mat. Og ég studdi bróður minn sem er dáinn. Og ég keypti mér nýjan skrifborðsstól eftir 30 ára notkun, ég keypti mér silkisæng og kjól til í að vera í á Grímunni.
En einsog við segjum á íþróttavellinum, MÓTLÆTI ER TIL AÐ SIGRAST Á.“
„Er ekki komiđ gott í þessu rugli međ listamannalaunin. Í þađ minnsta þarf ađ núllstilla þetta system og byrja uppá nýtt. Međ nýjum reglum. Hér stígur fòlk fram í fréttum og kvartar yfir því ađ hafa ekki fengiđ áframhaldandi listamannalaun í áskrift…hafandi fengiđ þau í 20 ár samfelld. Og sumir lengur. Manni verđur óglatt. Viđ þađ fòlk þarf einfaldlega ađ segja. „Get a FCKN Life“ Hámarkiđ ætti ađ vera 3-5 ár. Þá fá fleiri upprennandi ađ njòta.
Svo kemur mađur sem hefur veriđ hafnađ samfellt í 33 ár, en búinn ađ afreka margfalt á viđ marga þessara „snillinga“ sem hafa veriđ í áskrift einni saman. Mér dettur helst til hugar ađ ÞÞ sé ekki nægjanlega vinstrisinnađur. Skőmm ađ þessu. Nýja ríkisstjòrnin tekur væntanlega á slíku meini,“ segir Stefán Guðmundsson eigandi hvalaskoðunarfyrirtækisins Gentle Giants og vísar í viðtal Vísis við Þorgrím Þráinsson rithöfund.
Sigurður Guðmundsson tónlistarmaður fékk höfnun:
„Vei!! Í tilefni þess að hafa fengið enn eina synjunina um þessi umdeildu starfslaun, þá ætla ég bara að svei mér að halda tónleika á laugardaginn. Þeir verða haldnir á ÆGI220 í íshúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði. Miðaverð er hóflegt eða 4000kall. Leikin verða lög frá ýmsum tímum aðallega mín eigin. Allavega alveg pottþétt þetta sem fylgir. Vona að ég sjái ykkur sem flest. Hafnfirðingar og nærsveitungar sérstaklega hvattir til að mæta:).“
Rithöfundurinn Halldór Armand fékk höfnun:
„Auðvitað finnst mér dapurlegt, eins og mörgum kollegum mínum, að fá svona afgerandi höfnun, en ég tek þessari niðurstöðu fullkomlega, öfugt við það sem textinn frá Vísi hér að neðan gefur í skyn. Það er fullt af frábæru listafólki sem hefur aldrei fengið neina styrki, svo það er ekki hægt að kvarta yfir því að vera ekki meðal hinna útvöldu. Kerfið er eins og það er. Skáldbræður mínir og jafnaldrar í pjakkadeildinni Dagur Hjartarson og Jónas Reynir fengu líka höfnun og við erum sammála um að láta þetta ekki á okkur fá. Áfram gakk! sagði Dagur við mig og ég tek algjörlega undir það!“
Guðrún Arndís Tryggvadóttir myndlistarkona fékk höfnun:
„Ég ætlaði að harka af mér og taka ekki þátt í kvartkór listamanna sem ekki fá listamannalaun þetta árið en ég get ekki orða bundist yfir ákvörðunartextanum sem ber vott um fádæma fávísi jafnvel kvenfyrirlitningu því jú ég hef átt „slitróttan feril“ god damn it, því ég hef þurft að sjá mér og mínum börnum farborða án fyrirvinnu en samt alltaf á grundvelli listar hönnunar, listkennslu eða umhverfisfræðslu því að ég er jú hugmyndasmiður, grunngildi listarinnar er hugmyndavinna.
Jú reyndar hef ég farið út fyrir þann ramma og starfað fyrir ríkið sem landvörður og yfirlandvörður en það hefur líka breytt sýn minni á mátt náttúrunnar og gert mig að betri listamanni, tel ég. Ég hef alltaf starfað sem listamaður meðfram hvers lags vörslu og kennslu og aldrei látið deigan síga.
Guð blessi okkur listamennina 1.089 sem ekki eiga í nein hús að venda og eru skítugu börn þessa þjóðfélags.
241 listamenn í landinu fá s.s. smá verktakalaun á mánuði í allt frá tveimur mánuðum til tveggja ára. Athugið að undir þessum tölum eru allir listamenn landsins, ekki bara myndlistarmenn.“
Hulda Vilhjálmsdóttir fékk einnig höfnun:
„Ég fékk ekki listamannalaun. Veit ekki hvað eg geri. Guð staðan er erfið hjá mér.“
„Fékk ekki listamannalaun en drullaðist loksins út að hlaupa í frostinu og henti í bloggpóst með yfirskriftinni „ISS, ÞAÐ ER EKKI EINS OG MAÐUR GETI LIFAÐ Á ÞESSU HVORT EÐ ER!“, segir Björn Halldórsson rithöfundur.
Inga Sólveig Friðjónsdóttir ljósmyndari sótti ekki um og hefur þetta að segja:
„Ég er löngu hætt að leggja vinnu í að sækja um þessi blessuðu listamannalaun, fékk einu sinni úthlutað og ekki söguna meir. Enda er Ég að mestu leyti búin að gefast upp á að reyna að taka þátt í þessu listaspíru showi í Borg óttans…pifff. En þar fyrir utan getur fólk ekki ætlast til að vera í áskrift að þesum launum! Ungt og upprennandi fólk, þarf meira á þessu að halda, en það er ekki hlaupið að því, ansi oft sömu nöfnin sem fá laun aftur og aftur, þó þau séu að selja talsvert….og hananú. Góðar stundir. p.s.listamannalaun miðast við lágmarks framfærslu og eru 580.00, á meðan eru eftirlaun um 380.000!!!!!!!!!!! Hvaða réttlæti er í því?“
Hulda Rós Guðnadóttir myndlistarmaður fékk höfnun:
„Ég fékk skrítnasta höfnunartexta á mínum tuttugu ára listamannaferli. Til að setja eftirfarandi texta í samhengi þá er ég með tvær einkasýningar í Berlín og Reykjavík sem hafa verið lengi í undirbúningi og verið frestað allavega einu sinni þar sem ég hef ekki fengið listamannalaun síðustu tvö ár. Þriðja einkasýningin er í Vín og var mér boðið af sýningarstjóra sem hefur verið viðriðin Dokumenta. Þar á auki er eitt þekktasta bókaútgáfufyrirtæki heims á sviði lista að fara að gefa út 160 blaðsíðna mónógrafíu um verk mín og ég á tuttugu ára starfsafmæli á næsta ári. Er ekki nóg að ‘hafa unnið á einbeittan hátt að list sinniog á forsendum margra miðla og sé að stefna á nýjar slóðir’ —–. Fékk ekki neitt. Það er eitthvað bogið við þetta.“