Verkalýðsfélagið Efling hefur sent út bréf til að vara fólk sem vinnur í veitingageiranum við stéttarfélagi sem kallast Virðing. Segja forsvarsmenn Eflingar að um sé að ræða svokallað gervistéttarfélag.
„„Virðing“ er ekki raunverulegt stéttarfélag heldur svikamylla rekin af atvinnurekendum í þeim tilgangi að skerða laun og réttindi starfsfólks,“ segir í fréttatilkynningu Eflingar. „ Efling hefur staðfesta vitneskju um tilvik þar sem starfsfólki hefur verið sagt af atvinnurekanda að það eigi að starfa undir kjarasamningi Virðingar við atvinnurekendafélagið SVEIT. Tilgangur þess er að fá starfsfólk til að samþykkja lægri laun og verri kjör.“
Biður Efling allt starfsfólk í veitingageiranum sem hafi fengið boð frá atvinnurekanda sínum um að „taka þátt í þessum svikum“ að hafa samband við Eflingu án tafar með eyðublaði sem hægt er að finna hér.
„SVEIT hefur á liðnum árum barist fyrir gerð kjarasamnings þar sem laun starfsfólks á veitingahúsum verði lækkuð miðað við núgildandi lögvarin kjör í kjarasamningi Eflingar við Samtök atvinnulífsins,“ segir í tilkynningunni. „ SVEIT reyndi í fyrstu að sannfæra Eflingu um að ganga til kjaraviðræðna við sig á þeim forsendum, en því hafnaði félagið. Dró SVEIT þá Eflingu fyrir Félagsdóm, sem úrskurðaði að Eflingu bæri engin skylda til að semja við SVEIT og staðfesti jafnframt að ákvæði kjarasamnings Eflingar við SA væru lögbundin lágmarkskjör í geiranum.“
Bent er á að í stjórn Virðingar sætu þrír einstaklingar, þar af tveir sem koma beint að rekstri veitingastaða sem eigendur eða stjórnarmenn. „Ekki kemur á óvart að þeir veitingastaðir eru einmitt á félagaskrá SVEIT,“ segir í tilkynningunni.
Tíundaðar eru skerðingar á launum og réttindum í kjarasamningi Virðingar við SVEIT. Það er að dagvinnutími sé lengdur um þrjá klukkutíma, frá 17 til 20 sem þýði að þennan tíma fær fólk ekki vaktaálag. Einnig séu laugardagar frá 8 til 16 dagvinnutími. Í samningi hafi kvöldvaktarálag verið lækkað úr 33 í 31 prósent.
„Almennur starfsmaður á veitingahúsi með 1 árs starfsreynslu í geiranum mun, ef hann vinnur á kjörum SVEIT og Virðingar, verða fyrir launalækkun um 52.176 á mánuði eða sem nemur 10%,“ segir í tilkynningunni.
Einnig að orlofsréttindi séu færð niður í lögbundið 24 daga lágmark og öll orlofsvinna um fram það sem Efling hafi samið um við SA felld niður. Þá sé réttur til launa í veikindum skertur.
Greint er frá því að trúnaðarmenn af vinnustöðum Eflingarfélaga vítt og breitt af vinnumarkaðinum hafi farið á þriðjudag í heimsóknir á veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu. Einn tilgangurinn hafi verið að vara félagsmenn við að vera „svikin af SVEIT og Virðingu.“
„Efling mun aðstoða allt verkafólk sem eru fórnarlömb þessarar svikamyllu, óháð því hvort þau hafa skrifað undir ráðningarsamning þar sem vísað er til gervi-kjarasamnings Virðingar og SVEIT. Verkafólk þarf ekki að sætta sig við að vera blekkt á þennan hátt, sama hvað atvinnurekandi kann að segja þeim,“ segir að lokum. „Efling mun grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir svik og blekkingar SVEIT og Virðingar gegn starfsfólki veitingahúsa.“