Þetta er í raun svar Rússa við þeirri ákvörðun Vesturlanda að heimila Úkraínumönnum að nota langdræg vestræn flugskeyti til árása á rússneskt landsvæði.
Eins og áður, drógu Vesturlönd lappirnar í að taka ákvörðun um að leyfa notkun flugskeytanna til árása á rússneskt landsvæði. Ástæðan er ótti þeirra við hina svokölluðu rauðu línu Pútíns. Í hvert sinn sem Vesturlönd hafa farið yfir hana hafa Rússar hrópað að nú komi úlfurinn en hann hefur aldrei komið, fyrr en nýlega þegar fyrrgreindu flugskeyti var skotið á Úkraínu. Það bar þó ekki kjarnaodda, heldur hefðbundnar sprengjur.
Konrad Muzyka, forstjóri hernaðargreiningarfyrirtækisins Rochan Consulting, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem Rússar hafi gengið svo langt að skjóta flugskeyti, sem tengist kjarnorkuvopnum beint. Þetta hafi líka verið í fyrsta sinn sem Rússar tóku ákveðið skref til að sýna hvar rauða línan er.
Hann benti á að með því að skjóta flugskeytinu á Úkraínu hafi Rússar sent þau skilaboð að þeir geti skotið kjarnorkuvopnum á Úkraínu.
Hann sagði einngi að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af að kjarnorkustríð sé yfirvofandi og ekki heldur að Rússar beiti vígvallarkjarnorkuvopnum í Úkraínu.
Hann benti einnig á að Úkraínumenn hafi skotið vestrænum flugskeytum á Rússland eftir þetta. Til dæmis hafi þeir nýlega ráðist á herflugvöll í Kúrsk en Rússar hafi ekki svarað þeirri árás. „Nú er stóra spurningin hvernig Rússar hafa hugsað sér að svara. Þeir verða að halda sama stigi ef þeir vilja láta líta á sig sem land sem fylgir hótunum sínum eftir. Það ætti að verða stigmögnun núna en ef þeir gera ekkert, þá verða þeir hugsanlega álitnir mjög veikburða,“ sagði Murzyka.