Reuters skýrir frá þessu og hefur eftir embættismanni að staðan „sé mikið áhyggjuefni“ því smitum fjölgi sífellt.
Þess utan hamlar það hjálparstarfi að erfitt hefur reynst að útvega nóg af lyfjum.
Læknar hafa verið sendir til héraðsins til að taka sýni úr sjúklingum og til að rannsaka sjúkdóminn. Sjúkdómseinkennin eru að sögn ekki ósvipuð flensueinkennum.
Hin látnu létust að sögn heima hjá sér vegna skorts á aðhlynningu heilbrigðisstarfsfólks. Konur og börn hafa farið einna verst út úr sjúkdómnum.
Talsmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sagði á þriðjudaginn að henni hafi verið gert aðvart um sjúkdóminn og að verið sé að rannsaka hann.