Kaveh Hosseini, prófessor í hjartalækningum, tjáði sig nýlega um niðurstöður nýrrar rannsóknar en þær sýna að það eru 7% meiri líkur á að fólk fái of háan blóðþrýsting ef það fær ekki nægan svefn. Ef svefninn er undir fimm klukkustundum sumar nætur, þá eru líkurnar 11% meiri. Daily Star skýrir frá þessu og segir að skýrt hafi verið frá þessu á ársfundi bandarískra hjartalækna.
Hosseini sagði að miðað við niðurstöður rannsóknarinnar, þá virðist sem það sé hættumeira fyrir konur ef þær fá ekki nægan svefn en frekari rannsókna sé þörf. Hins vegar liggi fyrir að skortur á góðum svefnvenjum getur aukið líkurnar á of háum blóðþrýstingi sem aftur getur valdið hjartasjúkdómum og hjartaáföllum.
Ein milljón manna, frá sex löndum, tók þátt í rannsókninni. Fólkið var ekki með of háan blóðþrýsting þegar rannsóknin hófst. Fylgst var með fólkinu að meðaltali í fimm ár og tekið var tillit til hjartasjúkdóma, kyns, menntunar, reykinga og þyngdar.
Rannsóknin leiddi í ljós að svefnskortur gat valdið of háum blóðþrýstingi. Eins og fyrr sagði, þá sagði Hosseini að frekari rannsókna sé þörf. Hann ráðleggur fólki að sofa sjö til átta klukkustundir á hverri nóttu.