fbpx
Miðvikudagur 04.desember 2024
Fréttir

Viktoría handtekin og fjórir fílefldir lögreglumenn fylgdu henni úr landi – „Þetta er ein besta sál sem ég hef kynnst“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 3. desember 2024 16:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér blöskrar þetta ofbeldi gegn heiðarlegri og ábyrgri manneskju. Hún var handtekin í gær og eftir 15 klukkustunda einangrunarvist fylgdu fjórir fílefldir lögreglumenn henni úr í landi, eins og ótíndum glæpamanni, og hóta henni því að setja hana í handjárn ef hún verði með einhver læti,“ segir Gunnlaugur Gestsson. Rússnesk kona, Viktoría Þórunn, sem búið hefur á heimili Gunnlaugs og dóttur, í Garðabæ, var handtekin í gær og flutt nauðungarflutningi úr landi. Áfangastaður hennar, er að sögn Gunnlaugs, Moskva í Rússlandi, en fyrst var Viktoríu flogið til Parísar og þaðan var ferðinni heitið til Tblisi í Georgíu.

„Hún er í loftinu núna þegar við erum að tala saman,“ segir Gunnlaugur en DV tók viðtal við hann á þriðja tímanum í dag. Hann segir Viktoríu vinkonu sína vera heiðarlega, duglega og reglusama manneskju sem hafi eingöngu látið gott af sér leiða þann tíma sem hún hefur búið á Íslandi, en hún hefur meðal annars starfað að landgræðslu og dýravernd.

Gunnlaugur rekur í stuttu máli sögu Viktoríu á Íslandi:

„Hún kom hingað árið 2017 til að græða upp landið. Hún er útivistarmanneskja með áhuga á landgræðslu og kemur hingað sem sjálfboðaliði og er að vinna á svæðinu í kringum Hveragerði, var hér í um tvo mánuði. Síðan fer hún til baka til Rússlands. Hún er frá Austur-Rússlandi, Kaparosk, sem er Japansmegin. En það eltir hana þangað maður, íslenskur ríkisborgari, sem verður yfir sig ástfanginn af henni. Henni líst vel á þennan náunga, hafði kynnst honum eitthvað í Hveragerði og fannst hann leggja mikið á sig að koma alla leið til Rússlands að heimsækja hana. Þannig að hún fellst á að koma með honum til baka til Íslands. Hann biður hana um að giftast sér, hún giftist honum og síðan hefst þetta hefðbundna ferli, hún sækir um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar. Því var synjað á grundvelli þess að maðurinn var á sakaskrá.“

Viktoría hefur bæði sótt um dvalarleyfi og ríkisborgararétt hér á landi en umsóknum hennar hefur verið synjað. Hún hefur unnið fyrir sér með hundapössun m.a. og unnið að dýravernd í gegnum Facebook-síðuna Dýravinir Íslands, sem hún stofnaði.

Flýði ofbeldi eiginmannsins

Vikoría flutti inn á heimili Gunnlaugs í kjölfar ofbeldis eiginmanns hennar og hefur hún búið þar undanfarin fjögur ár, hefur teygst mjög úr þeirri dvöl sem átti upphaflega að vara í nokkrar vikur. Er hún skráð þar til heimilis.

„Hann beitti hana andlegu, líkamlegu og fjárhagslegu ofbeldi og það mál var kært til lögreglu. Ekki veit ég hvað hefur orðið um þá kæru, henni virðist hafa verið stungið undir stól. En hún fær aldrei dvalarleyfi og velkist um í kerfinu, fær ekki kennitölu. Það var send inn umsókn og meðmælabréf frá fjölda fólks sem hún hafði starfað fyrir, hún er ofboðslega vel liðin, allir tilbúnir að skrifa meðmæli,“ segir Gunnlaugur og bætir við með þungri áherslu:

„Þetta er ein besta sál sem ég hef kynnst og ábyrgasta manneskja sem ég hef kynnst.“

Hann segir að aðdragandinn að handtöku og brottvísun Viktoríu hafi verið sá að henni var gert að tilkynninga sig reglulega til lögreglu:

„Hún fékk bréf frá ríkislögreglustjóra fyrir þremur vikum, þar sem henni var allt í einu gert að tilkynna sig á lögreglustöð þrisvar til fimm sinnum í viku. Ég gerði athugasemdir við þetta, spurði hvers vegna hún ætti að tilkynna sig á lögreglustöð, hún er ekki í felum, það vita allir hvar hún býr, hún er með umsókn um dvalarleyfi í gangi og umsókn um ríkisborgarétt til Alþingis. Hvað er málið með þetta? En það kemur í ljós að hún er blekkt til að samþykkja þessa tilkynningaskyldu svo hægt sé að handtaka hana.“

Gunnlaugur keyrði sjálfur Viktoríu til lögreglu þar sem hún tilkynnti sig nokkrum sinnum í viku. „Svo bregður við klukkan hálfellefu í gær að hún er handtekin. Ég fæ ekki að hafa neitt samband við hana, henni er haldið í einangrun í fangaklefa og síðan flutt úr landi.“

Sakar lögreglu um ruddaskap

Gunnlaugur er mjög ósáttur við framkomu yfirvalda í málinu, þar á meðal lögreglu.

„Fjölskyldunni var ekki gefinn kostur á að kveðja hana né heimsækja í varðhaldi. Við vorum ekki látin vita af handtöku hennar og þegar við fáum þær fregnir þá fáum við engar upplýsingar né fáum við að  hitta hana. Þetta er jólaglaðningur íslenskra stjórnvalda til okkar að þessu sinni.“

Hann er mjög ósáttur við framkomu lögreglu: „Þegar við mætum á lögreglustöðina á Hverfisgötu er okkur einungis mætt með dónaskap, hroka, mannfyrirlitningu og svívirðilegri framkomu af hálfu lögreglufulltrúa og varðstjóra. Varðstjóri var það dónalegur að hann gaf sér tvær mínútur til að tala við okkur, snýr sér síðan við og segist vera upptekinn og hafi ekki tíma fyrir þetta. Rétt er hinsvegar að taka fram að margir mætir menn eru innan lögreglunnar, en því miður átti það ekki við í þessu tilviki. Allir þeir sem komu að þessari framkvæmd sýndu ófaglega og ruddalega framkomu í alla staði.“

Gunnlaugur hefur sent bréf til yfirvalda og fjölmiðla vegna málsins. Hann sættir sig ekki við þessu málalok:

„Hún var send í fötunum sem hún stóð í. Þetta gerðist í skjóli nætur. Glæsileg framkoma við yndislega persónu sem íslensk stjórnvöld hafa svikið, eða hitt þó heldur.
Rétt er að taka fram að þessar aðgerðir eru ólögmætar og svívirðilegar! Við munum aldrei sætta okkur við þessar aðfarir og förum fram á skýringar!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Einar segir Guðmund Andra hafa hæðst að sér þegar hann fékk ekki listamannalaun – „Með tæpar tvær milljónir á mánuði fyrir þægilega þingsetu“

Einar segir Guðmund Andra hafa hæðst að sér þegar hann fékk ekki listamannalaun – „Með tæpar tvær milljónir á mánuði fyrir þægilega þingsetu“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Vann í lottóinu um helgina: „Með öran hjartslátt langt fram eftir laugardagskvöldinu“

Vann í lottóinu um helgina: „Með öran hjartslátt langt fram eftir laugardagskvöldinu“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Andrés kallar eftir hjálp – „Þetta eru tveir strákar 18 ára gamlir með öll sín skólagögn og persónulega hluti inn á tölvunum sínum“

Andrés kallar eftir hjálp – „Þetta eru tveir strákar 18 ára gamlir með öll sín skólagögn og persónulega hluti inn á tölvunum sínum“
Fréttir
Í gær

Telur Miðflokkinn hafa klúðrað stórsigri – Höfnuðu blessun Guðs og settu gamla jálka í efstu sæti

Telur Miðflokkinn hafa klúðrað stórsigri – Höfnuðu blessun Guðs og settu gamla jálka í efstu sæti
Fréttir
Í gær

Arfurinn sem hún fékk á barnsaldri reyndist dýrkeyptur á fullorðinsárunum

Arfurinn sem hún fékk á barnsaldri reyndist dýrkeyptur á fullorðinsárunum
Fréttir
Í gær

Jón Ingi fékk sex ára fangelsisdóm í Sólheimajökulsmálinu

Jón Ingi fékk sex ára fangelsisdóm í Sólheimajökulsmálinu
Fréttir
Í gær

Dagur svekktur og játar sig sigraðan: „Ég skil ekki hvernig þetta kerfi virkar“

Dagur svekktur og játar sig sigraðan: „Ég skil ekki hvernig þetta kerfi virkar“
Fréttir
Í gær

Halldór Armand fékk ekki krónu í listamannalaun og birtir epíska mynd

Halldór Armand fékk ekki krónu í listamannalaun og birtir epíska mynd