Listamenn á Íslandi hafa nú fengið svör við umsóknum sínum um starfslaun fyrir árið 2025. Listi þeirra sem fær úthlutun verður kynntur opinberlega á fimmtudaginn en þegar hafa nokkrir greint frá því á samfélagsmiðlum að þeir hafi fengið neitun.
Til dæmis var umsókn rithöfundarins Elísabetar Jökulsdóttur hafnað, í fyrsta sinn í 20 ár, og myndlistarkonan Hulda Vilhjálmsdóttir hefur lýst sárum vonbrigðum og segist ekki vita hvernig hún eigi að ná endum saman á næsta ári.
Mikil óánægja er meðal listamanna sem fengu neitun, ekki endilega fyrir það eitt að umsókn þeirra var synjað, heldur með hvaða hætti. Að þessu sinni fengu listamenn ekki bara neitun heldur stuttan rökstuðning með. Margir eru sammála um að þessi rökstuðningur sé í mörgum tilfellum móðgandi, niðurlægjandi og byggi jafnvel á kvenfyrirlitningu. Eins þótti orðalagið stíft og helst minna á texta sem framleiddur er af gervigreind.
Nokkrir listamenn hafa deilt rökstuðningi sem þeir fengu með synjun úthlutunarnefndar. Hér verða talin upp nokkur dæmi:
Fjölmörg hafa lýst yfir óánægju með þennan rökstuðning úthlutunarnefndanna. Til dæmis segir myndlistarkonan Hulda Rós Guðnadóttir að um sé að ræða skrítnasta höfnunartexta sem hún hefur fengið á sínum tuttugu ára listamannaferli. Ein velti fyrir sér hvort gervigreind hafi skrifað rökstuðninginn eða hvort vírus hafi komist í kerfi Rannís. Rökstuðningurinn hefur sömuleiðis verið kallaður skammarlegur, sturlaður, lítilsvirðandi og niðurlægjandi. Hulda Rós bendir eins á að rök um slitróttan feril séu kvenfjandsamleg enda eigi ferill kvenlistamanna frekar til með að vera slitróttur en karla. Þetta endurspegli líka viðhorf til listamanna um að þeir eigi að vera eins konar vélar og taki ekki tillit til þeirra áhrifa sem það hefur á feril listamanna sem ekki fá starfslaun á hverju ári sem óhjákvæmilega geri feril þeirra slitróttan. Auk þess taki tíma að hugsa upp og þróa verk.
Listakonan Guðrún Arndís Tryggvadóttir segist ekki geta orða bundist yfir þessum ákvörðunartexta sem beri vott um „fádæma fávísi, jafnvel kvenfyrirlitningu“.
Aðrir veltu fyrir sér hvað felst í kröfunni um að umsókn hafi listræna þætti til að bera. Eigi umsóknin sjálf að vera listaverk? Enn aðrir hafa gagnrýnt að kröfur til umsókna séu ógagnsæjar og mat úthlutunarnefndar ófyrirsjáanlegt og galið.
Birta Guðjónsdóttir, myndlistarkona og sýningastjóri, kallar höfnunarbréfin „óþarflega brútal og furðuleg“ og spyr hvort það sé ekki nóg að vera að fylla heila starfsstétt depurð svona rétt fyrir jólin heldur þurfi svo að bæta við ásökunum í höfnunarbréfi um að viðkomandi listamaður sé ekki nógu listrænn til að fá greitt fyrir vinnu sína.
„Þetta þarfnast skýringa og afsökunarbeiðni til listamanna, sem er réttilega misboðið“
Tekið var fram í höfnunarbréfinu að úthlutunarnefndir stæðu frammi fyrir því að þurfa að hafna mörgum. Til úthlutunar voru 1.720 mánaðarlaun úr átta mismunandi sjóðum. Umsækjendur voru 1.340 en aðeins 251 fékk úthlutun.