Aston Villa goðsögnin Brian Little var í viðtali á dögunum þar sem hann fór um víðan völl. Rifjaði hann meðal annars upp sögur af einum mest krefjandi leikmanni sem hann þurfti að þjálfa á ferlinum.
Little, sem er í dag 71 árs, spilaði allan sinn feril með Villa og stýrði svo liðinu frá 1994-1998. Hann fékk marga flotta leikmenn til liðsins en það er ekki hægt að segja að öll kaupin hafi heppnast vel. Það á svo sannarlega við um Serbann Sasa Curcic sem var keyptur á 3,5 milljónir punda frá Bolton árið 1996. Þótti það há upphæð í boltanum á þeim tíma.
Curcic var þó einnig þekktur sem „serbneski George Best“ vegna partístands og ekki af ástæðulausu. Hann skoraði að lokum ekki eitt mark í 29 leikjum á tíma sínum hjá Villa. Eitt sinn missti hann þá af sex vikum á miðju tímabili þar sem hann fór í fegrunaraðgerð á nefi.
„Sjúkraþjálfarinn hringdi í mig og sagði að Sasa Curcic væri í London að gangast undir fegrunaraðgerð og að hann gæti ekki spilað á laugardag. Hann var með rómanskt nef en kom út með allt öðruvísi nef,“ rifjaði Little upp, en sem fyrr segir missti Curcic ekki bara af leiknum þennan laugardaginn.
„Ég gat valið um að sekta hann um tveggja vikna laun eða losa mig við hann. Hann kostaði mig 3,5 milljónir svo það kom ekki til greina. En hann endaði á að fara í tvær svona aðgerðir.“
Það lá greinilega á fyrir Curcic að gangast undir þessa fegrunaraðgerð. Breski miðillinn Daily Star rifjar upp ummæli fyrrum eiginkonu hans, Lisa Aldred, sem segir hann hafa talað mikið um að vilja nef eins og hún var með. Vinir hennar hafi þá oft rætt nef Curcic við hana.
Curcic talaði þá mjög oft um kynlíf sitt og segist hafa sofið með fjölda frægra kvenna. Hann sagðist til að mynda hafa sofið hjá ofurfyrirsætunni Naomi Campbell í London og einnig Carmen Electra úr Baywatch. „Við stunduðum kynlíf í sundlaug í margar klukkustundir. Hún var sú besta sem ég var með og klikkaðasta kona sem ég hef hitt,“ sagði hann um þá síðarnefndu á sínum tíma.