James Rodriguez gæti orðið næsta stóra nafnið til að ganga til liðs við Lionel Messi og félaga í Inter Miami, eftir því sem fram kemur í bandarískum miðlum.
Hinn 33 ára gamli Rodrigez gekk í raðir Rayo Vallecano í sumar og hefur ekki fengið mikið að spila. Þessi fyrrum leikmaður Real Madrid og Bayern hefur mikið verið á flakki undanfarin ár.
Nú gæti hann fært sig um set enn og aftur og gengið til liðs við Inter Miami, sem er í eigu David Beckham.
Sem fyrr segir er Messi á mála hjá liðinu og þar eru einnig menn eins og Luis Suarez og Sergio Busquets.
Inter Miami olli miklum vonbrigðum nýlega með því að detta úr leik í úrslitakeppni MLS-deildarinnar eftir að hafa átt gott tímabil fram að því.