Pervez var á ferðalagi með fjölskyldu sinni; eiginkonu og þremur börnum, þegar kona um borð í flugvélinni fór að demba yfir þau ókvæðisorðum. Pervez hefur til að mynda ljósmyndað fyrir Vogue og Harper’s Bazaar og er hann með yfir 140 þúsund fylgjendur á Instagram.
New York Post greinir frá þessu.
Pervez segir að 11 ára sonur hans hafi setið við hliðina á konunni í flugvélinni og hún hafi látið rasísk orð falla um hann. Pervez er fæddur í Boston en er af indversku bergi brotinn eins og fjölskylda hans. Þegar fjölskyldan var komin um borð í flugrútuna sem ferjaði farþega í flugstöðina hélt konan áfram og ákvað Pervez í kjölfarið að taka upp símann.
„Fjölskyldan þín er frá Indlandi. Þið hafið enga virðingu, engar reglur, þið haldið að þið getið ýtt öllum – ýtt, ýtt, ýtt. Þið eruð f-king rugluð,” sagði hún. Frekari orðaskipti fóru fram á milli Pervez og konunnar og ýjaði hún meðal annars að því að hann væri ekki Bandaríkjamaður.
Pervez segir í samtali við New York Post að það hafi verið óraunverulegt að lenda í þessari uppákomu. „Maður hefur oft séð svona á netinu en maður býst aldrei við því að lenda í einhverju svona sjálfur.”
Hann segist fyrst hafa átt orðaskipti við konuna þegar hann fór að athuga með son sinn sem sat nokkrum sætaröðum framar en hann. Konan hafi ekki verið í sætinu sínu og orðið pirruð þegar hún sá að Pervez stóð fyrir sætinu hennar. Hreytti hún í hann að hann væri fyrir henni og hvort hann gæti fært sig. „Ég sagði bara auðvitað og baðst afsökunar.“
Þegar vélin lenti sagði sonur hans við föður sinn að konan hefði spurt hann hvort hann væri Indverji og verið með almenn leiðindi. Leiðindin hafi svo byrjað fyrir alvöru þegar konan sagði börnum Pervez að þegja um borð í rútunni. Varð það til þess að hann tók upp símann og myndaði samskiptin sem fóru á milli.
Konan gaf sig á tal við starfsfólk á flugvellinum eftir að Pervez tók upp símann en að sögn sjónarvotta endaði það þannig að hún var sjálf fjarlægð úr rútunni.
Myndbandið er hægt að sjá hér að neðan. Ef það hleðst ekki er hægt að nálgast það á Instagram-síðu Pervez.
View this post on Instagram