Móðir hennar, Svetlana Krivonogik er ein auðugasta kona Rússlands og talið er að faðir Luiza sé enginn annar en Vladímír Pútín Rússlandsforseti.
Svetlana var ósköp venjulega kona sem framfleytti sér með þrifum. Proekt segir að hún hafi kynnst Pútín í lok tíunda áratugarins og verið ástkona hans í nokkur ár.
Svetlana eignaðist dóttur í byrjun mars 2003 en rússneskir fjölmiðlar hafa ekki skýrt frá nafni föðursins en talið er að það sé Pútín. Það styrkir þessar grunsemdir að millinafn hennar er Vladimirovna sem er talið vera bein tilvísun til föður hennar.
En það hefur aldrei verið staðfest opinberlega að hún sé dóttir Pútíns en það hefur ekki komið í veg fyrir að orðrómar hafi verið á kreiki um faðerni hennar og hún hefur ekki gleymst.
Úkraínski miðillinn TSN segir að Luiza hafi horfið algjörlega af samfélagsmiðlum og nánast af yfirborði jarðar skömmu áður en Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022.
TSN segir að hún hafi lagt stund á nám í ICART skólanum í París en ekki liggur fyrir hvort hún er enn við nám þar. Miðillinn segir einnig að Luiza og Svetlana notist nú við eftirnafnið Rudnova. „Eftir umfangsmikla rannsókn komst TSN að því að Luiza hefur nú breytt eftirnafni sínu í Rudnova og þar með líklega tekið eftirnafn Oleg Rudnov, sem er náinn bandamaður Pútíns, sem stundaði eitt sinn viðskipti með lúxusfasteignir,“ segir í umfjöllun TSN. Er hún nú sögð kalla sig Elizaveta Olegovna Rudnova.
Opinberlega er vitað að Pútín á tvær dætur, Katerina og Maria, með fyrrum eiginkonu sinni, Ljudmila Putina, en þau skildu 2013.
Hann er einnig sagður eiga tvo syni með fimleikakonunni Alina Kabajeva.