Hansi Flick, stjóri Barcelona, hefur tjáð sig um hollenska landsliðsmanninn Frenkie de Jong sem spilar með félaginu.
De Jong er ekki of vinsæll á meðal stuðningsmanna Barcelona í dag en hann var meiddur í sumar og er enn að koma sér í sitt besta stand.
Hingað til hefur De Jong spilað níu leiki í öllum keppnum en aðeins byrjað tvo og hefur frammistaðan ekki verið of heillandi.
Það var baulað á leikmanninn á 88. mínútu í vikunni er Barcelona vann lið Brest í Meistaradeildinni en hann kom þá inná sem varamaður.
,,Við styðjum við bakið á honum. Við erum með marga möguleika á miðjunni svo ég þarf að ákveða hvort leikmenn séu 100 prósent til taks og ég mun leita aftur til hans þegar hann er heill,“ sagði Flick.
,,Staðan er sú að hann fær mínútur og er að komast betur inn í hlutina. Ég mun gefa honum mínútur en á æfingum þarf hann að sanna að hann sé í toppstandi.“
,,Ég vil að stuðningsmenn styðji alla leikmenn liðsins. Þessir stuðningsmenn eru frábærir og samband okkar er mjög gott.“
,,Í fullkomnum heimi þá myndu allir leikmenn fá stuðning frá sínum stuðningsmönnum.“