Dagur B. Eggertsson ákvað að hafa húmorinn að vopni í kosningabaráttunni, bregðast við mótbyr með brosi og bakið beint.
Þetta hefur ekki verið auðveld barátta fyrir Dag sem meðal annars hefur orðið fyrir barðinu á harðorðri auglýsingaherferð og fengið á sig kæru fyrir brandara.
Dagur hvatti stuðningsfólk sitt í dag til að standa með sér og Samfylkingunni og þakkaði á sama tíma fyrir fjölskyldu sína og samstarfsfólk.
„Þetta er búið að vera mjög sérstök kosningabarátta svo ekki sé meira sagt.
Ég tók það ráð að bregðast við með brosi og hafa bakið beint, sama á hverju hefur gengið. Það hefði ég ekki getað án ykkar stuðnings og fjölskyldunnar – og hlýjunnar sem ég hef fundið – frá gömlum og nýjum vinum en ekki síður alls ókunnugu fólki um land allt.
Samstarfsfólkið mitt er engin undantekning. Þórir, sem margir þekkja sem húsvörð í ráðhúsinu, er nú orðinn bílstjóri borgarstjóra er einstakur maður með einstaka sögu. Hann laumaði þessum jólakúlum á skrifborðið hjá mér til að gleðja og styrkja. Þessi gjöf kom algjörlega á réttum degi.
Og nú er kjördagur og þá þarf ég á ykkur að halda. Meira en oft áður. Því bið ég ykkur um að standa með mér og okkur – og kjósa Samfylkinguna. Það er mikilvægt fyrir pólitíkina – en líka fyrir mig persónulega.
Takk og gleðilegan kjördag!“
Fyrsta uppþotið í kringum framboð Dags átti sér stað fljótlega eftir að framboðslistar voru kynntir en þá birtust orðaskipti sem formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, átti við kjósanda þar sem viðkomandi var bent á að hann gæti kosið Samfylkinguna og strikað Dag út en kjósandanum leist illa á Dag. Kristrún nefndi þá að Dagur væri aukaleikari í kosningabaráttunni og væri ekki að falast eftir ráðherraembætti.
Dagur sló því upp í grín í gær þegar hann birti mynd af sér með leikaranum og leikstjóranum Benedikt Erlingssyni. Hann sagði að Benedikt hefði kallað til hans: „Ég er líka aukaleikari – fékk meira að segja verðlaun.“
Eins og áður kom fram hefur Dagur verið kærður fyrir meint brot gegn kosningalögum eftir að hann svaraði föstum skotum frá Sjálfstæðismanni með því að hvetja til þess að Sjálfstæðismenn strikuðu yfir Dag á kjörseðli. Undirliggjandi grínið var að sjálfsögðu það að slíkt myndi ógilda atkvæðið, en brandarinn fór öfugt ofan í Sjálfstæðisflokkinn sem óttaðist að kjósendur áttuðu sig ekki á að um grín væri að ræða.
Dagur skrifaði í tilefni kærunnar í gær: „Jæja þá er búið að kæra mann, grunaður um grín,“ og sagðist hann vona að bæði Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn geti fundið húmorinn aftur eftir kosningar. „Eða ekki. Það er ekki öll vitleysan eins.“