Gestir Gísla Marteins í Vikunni í gær voru Jóhannes Haukur Jóhannesson, leikari, Lóa Björk Björnsdóttir, dagskrárgerðarkona, og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, fjölmiðlakona. Stjórnmálin voru þeim hugleikin enda tafðist útsending Vikunnar út af leiðtogaumræðunum og svo var auðvitað kjördagur fram undan.
Jóhannes Haukur var á því að Kristún Frostadóttir hefði staðið sig mjög vel í leiðtogaumræðunum, en Jóhannes kallar hana K. Frost sem mun vera viðurnefni sem má rekja til hlaðvarps.
„KG. pod kallar hana K-Forst ég ég held að þjóðin sé með í því, hún er með orðið og er svolítið að tækla Bjarna og Simma, þeir eru að reyna að gjamma eitthvað ofan í hana og Þorgerður Katrín var svona inni í myndinni og hún hafði svo gaman af því. Hún var bara svona: Heheh og naut þess hvernig Kristrún var að taka á þeim og mér fannst þetta svona skemmtilegt móment.“
Jóhannes taldi öruggt að það væru tvær blokkir að takast á í þessum kosningum. Annars vegar Samfylking og Viðreisn og hins vegar Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur.
„Önnur hvor er að fara að stjórna landinu.“
Sigrún Ósk tók þó fram að það hafi verið lítið fútt í kappræðunum í gær, lítið um læti og frekar málefnaleg umræða, ólíkt rifrildinu í kappræðunum á Stöð 2 fyrr í vikunni.
Þá vísaði Jóhannes til þess að kappræður séu ekki til þess fallnar að gefa góða mynd af flokkunum. Það hefði verið meira upplýsandi að sjá viðtöl við frambjóðendur í hlaðvörpum, þá sérstaklega hjá „sesamfræinu“.
Jóhannes var beðinn um að útskýra þetta viðurnefni. Hann rakti þá að KG pod, sem er slangur fyrir hlaðvarpið Komið gott í umsjón þeirra Ólafar Skaftadóttur og Kristínar Gunnarsdóttur.
„Tvær konur sem eru með hlaðvarp sem er kallað komið gott og ég dýrka þær, þær eru bara algjörlega með þetta. Leitið bara að þessu, finnið þetta og þið sjáið aldrei eftir þessu. Þær setja allt í samhengi og þær kalla Stefán Einar á Morgunblaðinu sesamfræið.“
Viðurnefnið er þó ekki dýpra en svo að það vísar til upphafsstafa Stefáns Einars Stefánssonar, SES. Jóhannes hélt áfram:
„Þessi viðtöl sem hann er búinn að taka hafa verið rosaleg og mér finnst við líka hafa séð hverjir eru vanir stjórnmálamenn og hver ekki. Eins og Þorgerður og K-Frost og líka Bjarni og Simmi.“
Það hafi ekki verið mikið um fyrirsagnir eftir þau viðtöl enda reyndir stjórnmálamenn sem láta ekki hanka sig. Meira að segja hafi Þorgerður mætt vel undirbúin, með grein sem Stefán Einar hafi skrifað um jafnlaunavottun og náði þannig að hanka hann á móti.
Tónlistarmaðurinn Magnús Jóhann Ragnarsson tók þá fram að Stefán Einar væri líklega sigurvegari kosninganna enda myndi hann sjálfur hugsa sig um tvisvar að mæta í viðtal til hans. Jóhannes tók undir að það væri ákveðin áhætta að mæta í Spursmál til Stefáns Einars en á sama tíma geti frambjóðendur varla sleppt því enda áhorfið mikið.
En það væri líka rétt að raunverulegur sigurvegari kosninganna sé sesamfræið.
„Þannig já, sesamfræið er sigurvegari kosninganna.“
Lóa Björk tók ekki alveg undir það. Hún vildi útnefnda sigurvegara og tapara. Sigurvegarinn væri hlaðvarp sem miðlunarform og taparinn væri tvímælalaust bloggið enda kom gamalt blogg í kollinn á frambjóðanda Samfylkingarinnar, Þórði Snæ Júlíussyni.