Alveg síðan John F. Kennedy, þáverandi Bandaríkjaforseti, var skotinn í Dallas, Texas í nóvember 1963 hafa háværir orðrómar um samsæri verið á kreiki. Var Lee Harvey Oswald einn að verki eða voru fleiri árásarmenn? Var hann kannski ekki einu sinni morðinginn? Hvernig gat ein byssukúla gert 7 sár í 2 mönnum? Af hverju sést haus Kennedy þrykkjast aftur á bak, ef skotið kom að aftan frá?
Þessar spurningar og fleiri hafa verið kveikjan að fjölmörgum bókum og heimildarmyndum í gegnum tíðina. Álhatturinn er skemmtiþáttur þar sem rýnt er í samsæriskenningar. Í þessum sérstaka kosningaþætti fengu buðu þeir öllum flokkum að senda hljóðbút frá fulltrúa sínum þar sem viðkomandi segir skoðun sína á kenningunum í kringum þetta morð. Í þættinum er reyndar viðfangsefnið morðið á bróður JFK, Robert F. Kennedy, sem var kominn nálægt því að vinna prófkjör Demókrata og fara í kosningabaráttu gegn Richard Nixon. Hann komst síðan ekki lengra en að vinna Californiu-fylki, því eftir prófkjörið þar var hann skotinn af Palestínumanninum Sirhan Sirhan sem var handtekinn á staðnum eftir að hafa verið tæklaður í gólfið á vettvangi, enn þá með rjúkandi byssuna í hönd. En gæti verið að það hafi verið samsæri líka? Ætlaði Bobby að afhjúpa sannleikann um bróður sinn ef hann kæmist í Hvíta Húsið?
Fulltrúar frá öllum flokkum, nema Vinstri grænum, sendu álhöttum hljóðbút en þeir sem koma fram í þættinum eru:
Alexandra Briem, 4. sæti í Reykjavík norður fyrir Pírata.
Guðlaugur Þór Þórðarson, 1. sæti Reykjavík norður fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Arnar Þór Jónsson, 1. sæti í Suðvesturkjördæmi fyrir Lýðræðisflokkinn
Aðalsteinn Leifsson, 3. sæti í Reykjavík Suður fyrir Viðreisn
Helga Þórðardóttir, 4. sæti hjá Reykjavík Suður fyrir Flokk fólksins
Einar Jóhannes Guðnason, 4. sæti Reykjavík Norður fyrir Miðflokkinn
Jóhannes Loftsson, 1. sæti í Reykjavík Norður fyrir Ábyrga Framtíð
Hrafn Splidt Þorvaldsson skipar 13. sæti í Reykjavík Norður fyrir Framsókn
Kristján Þórður Snæbjarnarson, 3. sæti í Reykjavík Suður fyrir Samfylkinguna
Karl Héðinn Kristjánsson, 2. sæti í Reykjavík Suður fyrir Sósíalistaflokkinn.
Alexandra Briem sagðist hafa efasemdir um að banamaður Robert F. Kennedy, Sirhan Sirhan, hefði verið dáleiddur af CIA. Hvað morðið á John F. Kenndy varðar telur Alexandra þó að mörgum spurningum sé ósvarað. Einkum veki opinberar skýringar á ferðalagi byssukúlunnar sem banaði forsetanum upp spurningar. Það var margt að eiga sér stað í bandarískum stjórnmálum á þessum tíma og mögulega eitthvað þarna að baki sem haldið sé leyndu. Ólíklegt sé þó að þeim spurningum verði nokkurn tímann svarað.
„Þetta er því miður eitt af þessum málum þar sem eru til of litlar upplýsingar, of langt um liðið og of mikið til af alls konar rugli og vangaveltum í umræðunni til að það sé sennilegt að við fáum þetta mál nokkurn tímann á hreint“
Guðlaugur Þór segir áhugavert að velta fyrir sér samsæriskenningum um morðið á JFK en hann telur þó persónulega ólíklegt að CIA hafi þar verið að verki.
„Ástæðan fyrir því að þessar samsæriskenningar hafa farið af stað eru margs konar. Ein er náttúrlega sú að í svona „panikástandi“ sem kemur upp, eins og í þessu tilviki þar sem forsetinn er myrtur, þá fara ýmsir hlutir úrskeiðis sem manni finnst skrítið að geti farið úrskeiðis þegar svona atburður á sér stað.“
Guðlaugur segir að morðið á morðingjanum, Lee Harvey Oswald, hafi þó alltaf truflað hann. Hvers vegna skaut næturklúbbseigandinn Jack Ruby hann og hvers vegna reyndist honum það svo auðvelt? Guðlaugur telur líklegra að ef brögð voru í tafli þá hafi mafían staðið þar að baki og myrt Oswald áður en hann kæmi upp um ráðabruggið.
„Margt virðist hafa farið úrskeiðis og þetta var svo stór atburður að ég held að fólk eigi erfitt með að sætta sig við að einhver maður hafi getað gert þetta með jafn lítilli fyrirhöfn, þennan hræðilega hlut, þetta morð.“
Arnar Þór segir að nærtækast sé í þessu máli að horfa á það sem fjölskylda JFK hefur um morðið að segja. Bróðursonur hans, Robert F. Kennedy, er sannfærður um að CIA hafi myrt forsetann.
„Hann [JFK] hafði áttað sig á því að CIA væri eins konar stríðsarmur bandarísku ríkisstjórnarinnar. Hann hafði tekið eftir því snemma að hlutverk CIA var að búa til stöðugt stríð. Eisenhower, fráfarandi forseti, hafði varað við þessu og hann hafði sagt að það hættulegasta í Bandaríkjunum væri the military industrial complex.“
CIA hafi reynt að fá forsetann til að ráðast innáí Kúbu, ráðast inn í Lagos og hefja stríð við Víetnam. JFK vildi frið og fyrir það var hann tekinn af lífi. „RFK segir að það sé bara ein skýring á þessu. Þetta hafi verið CIA og þetta hafi í rauninni verið valdarán.“
Aðalsteinn segist hafa lesið ótrúlegar samsæriskenningar um morðið á JFK en það sé svo að þegar upplýsingum er haldið leyndum þá verði það til þess að slíkar kenningar koma fram.
„Það sem gerir samsæriskenningar svo ótrúlega spennandi en um leið eiginlega bara mjög óspennandi er að þær er hvorki hægt að sanna né afsanna. Ég hef lesið margar ótrúlega skemmtilegar og ævintýralegar samsæriskenningar um morðið á JFK en fyrir mér þá er ekkert skrítið að þær hafi sprottið upp vegna þess að samsæriskenningar spretta upp þegar gögnum er haldið leyndum og það vantar gegnsæi. Bara rétt eins og sveppir í myrkri og fóðraðir af skít“
Helga segist ekki vera mikil samsæriskona og þ aðó margt hafi verið ritað um morðið á JFK þá hafi enn ekki tekist að sanna nokkra samsæriskenningu um málið.
„Ég er ekki mikil samsæriskenningarkona en mér hefur hins vegar alltaf fundist morðið á Kennedy sérkennilegt og þar er ég ekki ein á báti. Allt frá því Kennedy var myrtur hefur verið gefinn út fjöldinn allur af bókum með alls konar samsæriskenningum en engin þeirra hefur sannast enn þá“
Einar segir að hér sé á ferðinni mjög áhugaverð samsæriskenning. Sérstaklega athyglisverðar séu spurningar sem varða staðsetningu Lee Harvey Oswald, ferðalag byssukúlunnar og hvað honum tókst að skjóta mörgum skotum með þessu þunglamalega vopni. Faðir Einars, sem er veiðimaður, fór á svæðið þar sem Oswald á að hafa staðið. Hann hafi ekki áttað sig á hvers vegna Oswald hefði valið þennan stað og hvers vegna hann hefði þá ekki skotið mun fyrr að forsetanum.
Það sé klárlega ýmsu ósvarað í þessu máli.
Jóhannes tók fram að honum hafi alltaf þótt borðliggjandi að um innherjaaðgerð hafi verið um að ræða, sérstaklega þegar horft er til þess að Oswald var svo sjálfur myrtur af Jack Ruby sem hafi svo heppilega veikst í fangelsi og látið lífið skömmu eftir að mál hans átti að vera tekið fyrir að nýju. JFK hafi verið maður friðar, fyrir það var hann myrtur svo Bandaríkin gætu haldið áfram að fara í stríð.
Hrafn ákvað að nefna annan væng málsins, það að Oswald hefði fyrst reynt að bana hershöfðingjanum Edwin Walker. Walker var öfgahægri maður og hefði passað betur við hugmyndafræði Oswalds að myrða hann.
Hrafn telur þó að skýringin á morðinu á JFK sé nokkuð ljós. Oswald var „lúser“ og ekkert hafði gengið upp í lífi hans.
„Ég held að Oswald hafi skotið Kennedy til að gera sig alræmdan og tókst það á endanum og það var það eina sem hann náði einhvern tímann að gera við líf sitt.“
Kristján segist ekki hafa sett sig mikið inn í þessar samsæriskenningar en hann sé þó heimildarmynd um málið nýlega. Það sem vakti spurningar þar hafi verið skotsárið sem forsetinn lést af, staðsetning Oswald og svo það sem átti sér stað í kjölfarið þegar forsetinn var fluttur á sjúkrahús og reynt að bjarga lífi hans.
Karl Héðinn rakti að JFK hafi í kosningabaráttu sinni mikið talað um þá stöðu að Sovétríkin væru Bandaríkjunum framar hvað varðaði langdrægar eldflaugar og sprengjuvélar. Hann komst þó að því að raunin var önnur eftir að hann tók við embætti.
„Staðhæfingar um að Bandaríkin væru langt á eftir voru allar byggðar á lygi sem var hönnuð af djúpríkinu Pentagon til að auka ótta og vilja þingmanna til að setja enn meira fjármagn í uppbyggingu vopna og drápstækja.“
Ekki skánaði samband JFK við þetta djúpríki þegar stöðugt var þrýst á forsetann að fara í stríð. JFK fór svo með tilfinningaþrungna friðarræðu á fundi í háskóla sem CIA hafði mislíkað. Djúpríkið vildi heimsyfirráð Bandaríkjanna.
Karl segir að við ættum að taka okkur JFK til fyrirmyndar.
„Friðarræða hans hefur aldrei verði eins viðeigandi og það er mikil þörf á friðarsinnum eins og JFK í heiminum í dag, sérstaklega hjá æðstu embættismönnum.“
Frambjóðendur fara í saumana á samsæriskenningu