Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki alltaf átt sjö dagana sæla í kosningabaráttunni, í það minnsta hvað varðar skoðanakannanir Maskínu og Prósents.
Hjá Prósent hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið niður í lægstu lægðir:
Hjá Maskínu mældist flokkurinn líka framan af með lítið fylgi:
Það heyrði þó til tíðinda í gær þegar Sjálfstæðisflokkur mældist með 14,7% hjá Prósent og 17,6% hjá Maskínu.
Maskína hefur birt sundurliðun á könnunum sínum og þar er áhugavert að greina hvernig fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur þróast hjá ólíkum hópum. Flokkurinn mældist í gær með 14,1% meðal kjósenda á aldrinum 18-29 ára. Flokkurinn mældist með 11,9% hjá þessum hóp fyrr í vikunni og 10,7% þann 14. nóvember. Svo fylgið hefur tekið mikið við sér hjá unga fólkinu.
Eins hefur fylgið hjá tekjulægstu kjósendunum tekið verulega við sér. Flokkurinn mældist með 3,8% hjá kjósendum með lægri en 550 þúsund krónur á mánuði þann 14. nóvember en mældist í gær með 10,9% hjá sama hóp. Flokkurinn hefur eins bætt mikið við sig hjá kjósendum á aldrinum 40-49 ára og hjá kjósendum sem hafa aðeins lokið skyldunámi.
Hér má sjá sundurliðun á nýjustu könnun Maskínu:
Hér má svo sjá sundurliðun á könnun Maskínu sem kom út þann 14. nóvember.
Sjálfstæðisflokkurinn mældist svo með 18,4% fylgi í lokakönnun Gallup fyrir kosningarnar, en hér má sjá sundurliðun sem fylgdi könnuninni:
Sjálfstæðisflokkurinn hefur undanfarinn mánuð keyrt öfluga kosningabaráttu á öllum helstu miðlum. Sérstaklega hefur mátt merkja innspýtingu á TikTok þar sem myndbönd hafa vakið mikla athygli og má sjá að þar hefur flokkurinn fengið lánaða hugmynd frá Höllu Tómasdóttur forseta. Halla þótti öflug á TikTok og lék knattspyrnumaðurinn Eyþór Aron Wöhler stórt hlutverk í þeirri herferð en hann hefur nú orðið áberandi í TikTok myndböndum Sjálfstæðisflokksins, ásamt Kristali Mána Ingasyni en saman skipa þeir tvíeykið HúbbaBúbba sem nýtur mikilla vinsælda meðal yngri kynslóðanna.
Eins hefur flokkurinn lagt mikla áherslu á að vara við vinstri stjórn, vara við inngöngu í ESB og loks hefur hjálpað að frá því að kosningabaráttan hófst hefur bæði dregið úr verðbólgu og vextir eru farnir að lækka.