Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kom flokkssystur sinni og oddvita í Suðurkjördæmi, Ástu Lóu Þórsdóttur, ekki til varnar í leiðtogaumræðum á RÚV í kvöld.
Inga var spurð út í ummæli Ástu Lóu um að setja ætti neyðarlög á Seðlabanka Íslands til að lækka vexti. Það er að taka fram fyrir hendurnar á bankanum og eftirláta stjórnmálamönnum að ákveða vextina í landinu. Var Inga spurð hvort hún styddi þetta og hvort henni fyndist þetta vera skynsamleg hagstjórn.
Reyndi Inga að færast undan spurningunni og færa umræðuna að húsnæðismálum í staðinn. En þegar hún var innt eftir svörum sagði hún að þetta væri ekki stefna flokksins.
„Þetta er ekki stefna Flokks fólksins,“ sagði Inga.
Aðspurð um hvort hún væri sammála svaraði hún hins vegar ekki.
„Þannig að þú ert ekki sammála þessu?“ sagði Sigríður Hagalín spyrill.
„Ég sagði það ekki en þetta er ekki stefna Flokks fólksins,“ sagði Inga þá.