Ásgeir Bolli Kristinsson, verslunarmaður, segir það af og frá að hann hafi fjármagnað eða komið nálægt auglýsingaherferð gegn Degi B. Eggertssyni, fyrrverandi borgarstjóra, sem nú er í framboði til þings fyrir Samfylkinguna.
Auglýsingarnar vöktu talsverða athygli á dögunum og birtust í öllum helstu ljósvakamiðlum. Ábyrgamaður þeirra var Hilmar Páll Jóhannesson, sem staðið hefur í deilumálum við Reykjavíkurborg vegna lóða á Gufunesi og hefur ekki farið leynt með skömm sína á degi.
Slík auglýsingaherferð kostar þó drjúgan skildinginn, jafnvel upp undir 20 milljónir króna. Orðrómur var því uppi um að Hilmar Páll ætti sér fjárhagslegan bakhjarl og í ljósi þess að Bolli fjármagnaði áþekka auglýsingaherferð gegn Degi árið 2021, sem hann fékk verulega bágt fyrir, var hann talinn manna líklegastur.
Fjallað var um þá kenningu í Orðinu á götunni á DV fyrr í vikunni
„Ég er ekkert viðriðinn þessar auglýsingar og því síður að ég greiði þær. Ég hef aldrei hitt eða talað við þennan Hilmar,“ segir Bolli og kveður orðróminn því kyrfilega í kútinn.