fbpx
Föstudagur 29.nóvember 2024
Fókus

Páll Vilhjálms sakaður um að hafa eyðilagt barnaafmæli – „Þetta símtal var á laugardagskvöldi“

Fókus
Föstudaginn 29. nóvember 2024 12:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Páll Vilhjálmsson blaðamaður og kennari segir tilviljun hafa ráðið því að hann fór að blogga fyrir 20 árum, en nú eru færslurnar orðnar fleiri þúsund. Páll, sem var gestur í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist ekki skilja löngum fólks til að tilheyra meirihlutanum og gera allt til að standa með meirihlutanum hverju sinni.

„Ég fór eiginlega í þetta af rælni í gegnum konuna mína. Ég ýtti þessu frá mér af því að ég er gamaldags maður, en hún hélt áfram að ota þessu að mér. Það eru liðin 20 ár síðan ég byrjaði og það hafa ekki komið margir dagar sem ég hef ekki bloggað. Ég hafði unnið sem blaðamaður og hafði kynnst pólitík í návígi í gegnum það og hef alltaf haft áhuga á samfélagsmálum. Það gerist í gegnum stafrænu byltinguna að það verður mikil breyting á öllu landslagi. Það sem áður var bakland í stjórnmálum og stjórnmálaflokkum hefur núna færst meira og minna í opinbera umræðu. Ég hugsaði á einhverjum tímapunkti að mín rödd ætti alveg eins að heyrast eins og hver önnur í samfélagsumræðunni,“ segir Páll, sem hefur oft tjáð skoðanir sem ekki margir tjá opinberlega og stundum fengið talsverðan vind í fangið. Hann segist alltaf hafa verið þannig gerður að hann skilji illa þörfina til að tilheyra vinsælustu skoðuninni hverju sinni og vera hluti af meirihlutanum.

„Við erum frekar lítið samfélag og það virkjast oft á Íslandi það sem væri hægt að kalla stafrænan múg og ég hef aldrei skilið af hverju fólki finnst svona gott að vera hluti af múgnum. Kannski er ég svona takmarkaður en mér finnst múgur í sjálfu sér ekki spennandi fyrirbæri. Að fá svölun í því að taka fólk niður og vera í miklum tilfinningaæsingi. Kannski er ég fæddur andófsmaður í einhverjum skilningi, ég á í það minnsta ekki erfitt með að standa fyrir utan meirihlutann. Múgurinn virkar þannig að það á að steypa alla í sama mót og ef þú ert ekki hluti af því þá þarf að útskúfa þér.”

Sakaður um að hafa eyðilagt barnaafmæli

Páll hætti nýlega störfum sem framhaldsskólakennari eftir áralangt starf. Hann og skólameistari skólans komust að samkomulagi um þessa niðurstöðu. Páll segir að hægt og rólega hafi orðið erfiðara og erfiðara fyrir sig að starfa í þessu umhverfi vegna skoðana sinna.

„Það voru lengi vel engin vandkvæði við að ég væri að tjá mig opinberlega gagnvart störfum mínum við kennslu. En svo gerist það að ég fer að verða meira og meira lesinn og það fer að fara í taugarnar á fólki. Ég er frekar til hægri í tilverunni, en kennarar eru almennt mikið til vinstri í stjórnmálaskoðunum. Ég talaði aldrei um bloggið að fyrra bragði í vinnunni og hélt þessu alltaf alveg aðskildu. En svo fer ég að fá skrýtin skilaboð. Fyrir nokkrum árum er ég úti að ganga þegar skólastjórinn hringir í mig og segir við mig með miklum þunga að ég hafi eyðilagt barnaafmæli með bloggi frá mér. Þetta símtal var á laugardagskvöldi og við ákveðum að ræða þetta á mánudeginum. Þá fæ ég að vita að fullorðna fólkið í barnaafmælinu hafi farið að lesa blogg eftir mig og það hafi eyðilagt stemmninguna í afmælinu. Þetta afmæli tengdist kennara í skólanum og ég er þarna gerður ábyrgur fyrir því að stemmningin í þessu barnaafmæli hafi súrnað bara af því að ég hafði skrifað eitthvað mörgum dögum fyrr. Þetta er auðvitað mjög sérstakt og smám saman fór ég að finna að það fór að verða erfiðara og erfiðara fyrir mig að starfa í þessu umhverfi bara út af mínum skoðunum,“ segir Páll.

Samskipti voru góð við nemendur

Páll segir að hann hafi aldrei átt slæm samskipti við nemendur á öllum sínum ferli og ekki fundið fyrir neinum vandkvæðum þar. Óánægjan hafi meira komið úr öðrum áttum.

„Ég hef aldrei lent í neinum vandræðum í samskiptum við nemendur og samskipti mín við nemendur mína hafa verið frábær. En sumir af kennurunum voru verulega ósáttir við mig. Ég hef gert mér far um að vera opinn og aðgengilegur gagnvart nemendum mínum, en að sama skapi passa mig að fara aldrei inn á þeirra persónulega svið. En ég hef alltaf haldið þá reglu að sýna öllum nemendum mínum virðingu og aldrei kvikað frá því,” segir Páll, sem segir að óánægjan hafi mikið komið frá ákveðnum kennurum.

„Það gerist að það er haldinn kennarafundur þar sem er bara eitt mál á dagskrá. Páll Vilhjálmsson. Þar er einn kennari sem fannst ekki í lagi hvernig hafði verið komið fram við mig og sagði samkennara mína skulda mér afsökunarbeiðni. Ég ákvað í kjölfarið að reyna að lægja öldurnar og minnti á mikilvægi þess að við myndum virða ólíkar skoðanir og að ég héldi skrifum mínum alveg aðskildum frá kennslunni. En það koma upp 4-5 aðrir kennarar í kjölfarið og fara að úthúða mér, meðal annars fyrir að gagnrýna RÚV og andrúmsloftið var bara orðið mjög fjandsamlegt.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Pál og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Læknir segir að þetta ættu allir að kunna – „Eina kúkaráðið sem virkar í alvöru“

Læknir segir að þetta ættu allir að kunna – „Eina kúkaráðið sem virkar í alvöru“
Fókus
Í gær

Sorgartíðindi úr herbúðum spjallþáttadrottningarinnar

Sorgartíðindi úr herbúðum spjallþáttadrottningarinnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Óheppileg mistök Costco vekja athygli Íslendinga – „Hver setur stól í örbylgjuofn?“

Óheppileg mistök Costco vekja athygli Íslendinga – „Hver setur stól í örbylgjuofn?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur í áfalli yfir þyngdartapi söngkonunnar

Aðdáendur í áfalli yfir þyngdartapi söngkonunnar