Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, virðist hafa unnið sér inn virðingu og hlýjan hug margra lækna en nokkuð hefur borið hefur á stuðningsyfirlýsingum til hans úr þeim ranni í aðdraganda alþingiskosninga.
Skemmst er að minnast aðsendrar greinar læknanna Kristjáns Guðmundssonar og Sigfúsar Gizurarsonar í Morgunblaðið í vikunni þar sem þeir lofuðu Willum og sögðu að aldrei á þeirra starfsævi hafi ríkt önnur eins sátt um heilbrigðisráðherra meðal lækna og á við í tilviki Willum.
Einn þeirra er Theódór Skúli Sigurðsson, svæfinga- og gjörgæslulæknir á Landspítalanum, sem hrósaði heilbrigðisráðherranum í hástert í færslu á samfélagsmiðlum í gær.
„Mig langar því að að fara yfir verk starfandi heilbrigðisráðherra Willum Þórs Þórssonar á þeim rúmu þremur árum sem hann fékk til verksins.
Willum kom vel undirbúinn í heilbrigðisráðuneytið, hafandi verið formaður fjárlaganefndar, vissi hann hvert væri hægt að sækja fjármagn og nýta til nauðsynlegra verka. Fyrst þurfti hinsvegar að meta umfang verkefnanna, virkja fagfólk í starfshópa og koma fram með trúverðugar tillögur um úrbætur. Síðan hefur hver starfshópurinn á fætur öðrum skilað sinni vinnu og ekki stendur á viðbrögðum í kjölfarið,” skrifar Theódór og listar upp það sem hefur áunnist í tíð Willum.
Þá segist Theódór skemmtilega sögu af því þegar Willum Þór ávarpað aðalfund Læknafélags Íslands en það hafi hann gert í þrígang. „Í hvert sinn ávann hann sér virðingu og lof fleiri lækna, svo mikið að á endanum missti Katrín Fjeldsted heimilslæknir, fyrrum alþingismaður og heiðursfélagi í Læknafélagi Íslands út úr sér „Ráðherra bara búið gera lækna að Framsóknarmönnum!“ Að sjálfsögðu er mikið verk óunnið, en framlag og þrotlaus vinna fráfarandi heilbrigðisráðherra á þeim stutta tíma sem hann fékk til verksins verður seint fullþakkað.“