Ruben Amorim vann sinn fyrsta sigur sem stjóri Manchester United þegar liðið fékk Bodo/Glimt frá Noregi í heimsókn í Evrópudeildinni í kvöld.
United vann þar nauman 3-2 sigur þrátt fyrir mikla yfirburði stærstan hluta leiksins. Alejandro Garnacho kom United yfir á annari mínútu.
Þeir norsku svöruðu fyrir sig og komust í 1-2 áður en Rasmus Hojlund jafnaði fyrir United skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks.
Hojlund skoraði svo eina markið í síðari hálfleik og tryggði United sigur og fína stöðu í Evrópudeildinni þegar tveir leikir eru eftir í deildarkeppni.
Tottenham gerði 2-2 jafntefli gegn Roma þar sem Son Heung-Min og Brennan Johnson voru á skotskónum. Tottenham var 2-1 yfir þegar komið var fram í uppbótartíma en þá jafnaði Mats Hummels fyrir gestina.
Kristian Nökkvi Hlynsson spilaði síðustu 15 mínúturnar fyrir Ajax þegar liðið tapaði 2-0 gegn Real Sociedad. Orri Steinn Óskarsson var frá vegna meiðsla.
Elías Rafn Ólafsson var í marki Midtjylland sem tapaði gegn Frankfurt á heimavelli. Andri Fannar Baldursson byrjaði í liði Elfsborg í tapi gegn Athletic Bilbao en Eggert Aron Guðmundsson var ekki í hóp.