Frábær framganga Víkings í Evrópu heldur áfram en liðið sótti stig á útivöll gegn FC Noah í Armeníu í kvöld. Stigið kemur Víkingum svo gott sem inn í útsláttarkeppni Sambandsdeildarinnar sem fer fram í febrúar.
Víkingur er komið með sjö stig eftir tvo góða sigra og svo jafnteflið í kvöld. Liðið á tvo leiki eftir í desember til að safna fleiri stigum.
Leikurinn var mjög jafn en á einhvern ótrúlegan hátt fékk Víkingur ekki vítaspyrnu þegar brotið var svo klárlega á Valdimari Ingimundarsyni en ekkert var dæmt.
Víkingar gerðu vel í síðari hálfleik og gáfu fá færi á sér.
Víkingur er í ellefta sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar þegar tveir leikir eru eftir en 24 efstu liðin fara áfram í umspil. Átta efstu fara beint í sextán liða úrslitin en hin 16 liðin fara í umspilið um að komast þangað.