Nýlega kom út bókin Ég skal hjálpa þér: Saga Auriar. Auri Hinriksson á að baki merkilegan lífsferil en hún er þekktust fyrir að hafa aðstoðað fólk ættleitt frá Srí Lanka að finna líffræðilega foreldra sína og fjölskyldu. Auri er fædd í Colombo á Srí Lanka en flutti fertug til Ísafjarðar með eiginmanni sínum, Þóri Hinrikssyni, og fimm ára syni.
Í þessari áhugaverðu ævisögu, sem rituð er af Herdísi Magneu Hübner, segir Auri frá uppruna sínum, vinnu fyrir stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem leiddi hjónin saman og frá lífi víða um lönd en auk Íslands og Srí Lanka, bjó fjölskyldan um tíma á Indlandi, Barein og í Íran. Saga Auriar er einstök frásögn af kjarkmikilli konu sem lætur ekki brjóta sig niður, heldur rís alltaf upp og blómstrar mitt í mótlætinu.
Hér fyrir neðan má lesa fyrsta kafla bókarinnar þar sem Auri bjargar naumlega syni sínum frá því að vera numinn á brott af manni sem hún áttaði sig mörgum árum seinna á að hefði verið tengdur mansalshringjum á Sri Lanka.
Colombo sumarið 1978
Það er kominn júní. Aðeins fáeinar vikur eru þar til fjölskyldan yfirgefur Srí Lanka og flytur til Barein og ég er bæði með kvíðahnút og fiðrildi í maganum. Ég er strax byrjuð að sakna landsins, fólksins og menningarinnar en hlakka líka til að komast á framandi slóðir, sannfærð um að þar bíði mín ný og heillandi ævintýri. Ég vil nýta tímann fram að brottför vel og njóta alls sem í boði er og hef tekið upp þann sið að bjóða starfsfólki mínu, bílstjóranum, matráðskonunni, vikapiltinum og þjónustustúlkunni, á einhvern menningarviðburð í borginni á hverjum laugardegi, við förum saman í leikhús, á tónleika, danssýningar eða í óperuna. Þórir er heima á meðan og gætir Shirans sonar okkar sem er orðinn sjö mánaða, státinn og gullfallegur snáði. Þetta kvöld ætlum við að fara í leikhúsið að sjá Singhabahu, sígilt, þjóðlegt verk, og ég hlakka mikið til. Ég útbý matinn fyrir Shiran og litli augasteinninn minn er tilbúinn í bólið þegar ég kyssi hann bless. Hann hefur verið svolítið rellinn í dag og ég finn að hann er dálítið heitur en þegar ég hef orð á því við Þóri segir hann að ég skuli drífa mig í óperuna, stráknum sé bara heitt, enda er heitt í veðri eins og ævinlega í Colombo þar sem hitinn er nálægt þrjátíu gráðum allan ársins hring.
Ég kem heim eftir dásamlegt kvöld en þá tekur Þórir á móti mér í mikilli geðshræringu og uppnámi, segir að Shiran sé fárveikur, hann hafi skyndilega fengið háan hita og krampa og við þurfum að fara með hann til læknis undireins. Ég hringi í lækni sem segir okkur að koma umsvifalaust með barnið á sjúkrahúsið. Þjónustustúlkan Mabel tínir í snatri saman það sem við þurfum að hafa með okkur, Kirinelis bílstjóri brunar með okkur á sjúkrahúsið sem er ekki langt frá heimilinu og við erum komin þangað hálftíma síðar. McCarthy-sjúkrahúsið er einkarekið, byggingin er á tveimur hæðum, látlaus og ljósmáluð með rauðu þaki. Til eru fínni sjúkrahús í borginni en McCarthy er traust og virt stofnun sem hefur reynst fjölskyldunni vel í áranna rás. Shiran fæddist þar og líka systkinadætur mínar. Læknirinn sem tekur á móti okkur, dr. Srinath Seneviratne, er náinn vinur okkar, hann var viðstaddur fæðingu Shirans og hefur alltaf annast hann eins og sinn eigin son en sjálfur er hann ókvæntur og barnlaus. Hann og fleiri læknar taka alls kyns sýni og rannsaka drenginn hátt og lágt en finna enga skýringu á veikindunum. Hann er með háan hita, uppköst og niðurgang. Fjölskyldan fær stóra einkastofu með tveimur aukarúmum og allt er gert fyrir Shiran sem mögulegt er en biðin er erfið fyrir okkur foreldrana eins og allir kannast við sem hafa vakað yfir veiku barni sínu.
Eftir þrjá sólarhringa tekur loks að brá af Shiran litla og öllum léttir mjög þegar hann brosir og sýnir okkur sökudólginn: ofurlitla, snjóhvíta perlu sem gægist upp úr neðri gómi. Fyrstu tönnina. Niðurstaða læknanna er sú að hún hafi átt sök á veikindunum, enda lækkar hitinn nú ört og drengnum líður talsvert betur. Tanntaka getur tekið á. Þungu fargi er létt af okkur Þóri og hjúkrunarfólkinu og allir dást að nýju tönninni, skömminni þeirri arna. Þau vilja þó halda drengnum svolítið lengur á sjúkrahúsinu til öryggis.
Þórir telur sér óhætt að skreppa á skrifstofuna fyrst drengurinn er að hressast. Ég er úrvinda, ég hef lítið getað sofið fyrir áhyggjum og streitu og er dauðþreytt eftir þetta allt saman, sveitt og klístruð af svefnleysi og þreytu. Litli engillinn minn sefur nú vært og ég ákveð að skreppa heim til að fara í sturtu og skipta um föt. Mabel situr hjá barninu á meðan.
Klukkutíma síðar er ég á leiðinni aftur á sjúkrahúsið. Þegar bíllinn ekur inn í fáfarna götuna sem sjúkrahúsið stendur við rek ég augun í mann sem stikar hröðum skrefum eftir gangstéttinni með ákaflega fallegt barn í fanginu. Ég hrekk í kút þegar ég sé barnið, það er Shiran! Ég stirðna upp og æpi á Kirinelis: „Snúðu við, snúðu við!“ Hann gerir það, ég snarast út úr bílnum og hleyp á eftir manninum. Hann greikkar sporið í fyrstu en ég næ honum og hrifsa drenginn úr höndunum á honum. Maðurinn snýr sér að mér og brosir sínu blíðasta, segir ekkert en heldur göngunni áfram eins og ekkert hafi í skorist. Ég vind mér inn í bílinn, faðma barnið mitt, ég er gráti nær og segi Kirinelis að aka að sjúkrahúsinu. Ég er agndofa og hjartað hamast í brjósti mér. Hvað í ósköpunum var á seyði? Hvert ætlaði þessi maður að fara með drenginn minn?
Fyrir utan sjúkrahúsið sé ég eina af starfskonum hússins standa og daðra við bílstjóra sem situr í bíl á stæðinu. Ég kannast við hana af ganginum þar sem Shiran lá. Ég flýti mér framhjá henni inn í húsið, hringi strax í Þóri og bið hann að koma undireins. Svo fer ég upp á sjúkrastofuna en þar er enginn. Ég finn Mabel í öðru herbergi þar sem hún situr á tali við fólk sem ég þekki ekki. Stúlkan ber sig aumlega, segist hafa séð gamla kunningja úr þorpinu sínu og farið fram til að spjalla við þá en Shiran hafi verið sofandi þegar hún fór frá honum. Hún telur líklegast að konan sem var að tala við bílstjórann á bílastæðinu hafi farið með drenginn niður.
Þórir kemur fljótlega og verður öskuvondur þegar hann heyrir hvað hafi gerst, hann æðir inn á skrifstofuna og skipar starfsfólki sjúkrahússins að koma með reikninginn og útskrifa drenginn eins og skot, við séum farin heim. Fólkið maldar í móinn, segir að við getum ekki farið án samþykkis læknisins en við Þórir tökum saman allt okkar hafurtask og flýtum okkur út með drenginn ásamt þjónustustúlkunni.
Líklega má kalla það mikið lán fyrir mig að ég skyldi ekki á þessari stundu hafa neina hugmynd um þá umfangsmiklu glæpastarfsemi sem stunduð var á þessum tíma á Srí Lanka þar sem börnum var rænt, einmitt á sjúkrahúsum. Hvergi hafði verið minnst á neitt slíkt í fjölmiðlum. Þetta atvik var í huga mínum aðeins furðuleg og óskiljanleg uppákoma en hefði ég vitað þá það sem ég veit nú hefði áfallið orðið mér óbærilegt.
Við hjónin veltum málinu nokkuð fyrir okkur en ákváðum af ýmsum ástæðum að engin eftirmál yrðu af þessu atviki, við myndum ekki kæra sjúkrahúsið og Mabel skyldi halda vinnunni hjá okkur. Ég bjóst við að Þórir myndi reka hana fyrir að hafa farið frá drengnum en stúlkan hafði reynst okkur trú og trygg og vissi greinilega ekki neitt um þetta tilvik, hún var aðeins 19 ára og var lengi hjá okkur eftir þetta. Fyrst og fremst var það vinátta okkar við dr. Srinath Seneviratne sem varð til þess að við vildum ekki kæra eða láta reka neinn úr vinnu vegna þessarar uppákomu.
Shiran hafði ekkert kippt sér upp við atvikið, hann var alveg laus við mannfælni, tók öllum vel og fannst bara mjög gaman að fara út að horfa á trén, fuglana og fiðrildin. Við prísuðum okkur sæl að ég skyldi hafa verið á réttum stað á réttu augnabliki og náð drengnum okkar úr höndum þessa ókunnuga manns. Við vorum hvort sem var á förum úr landinu og vildum bara gleyma þessu. Um áratug síðar fékk ég fyrstu beiðnina um að hjálpa ættleiddu fólki í Evrópu að finna líffræðilega foreldra sína á Srí Lanka og smám saman komst ég að því að verið var að afhjúpa glæpahringi sem höfðu stundað skipulögð barnsrán, einkum var börnum fátæks fólks rænt á ríkisreknum spítölum. Einkasjúkrahúsin voru talin öruggari. Börnin voru oftast seld til evrópskra fjölskyldna sem ættleiddu þau en sum hlutu hryllileg örlög, voru seld til líffæraflutninga eða til kynferðislegrar misnotkunar, önnur voru limlest og síðan gerð út til að betla á götunum. Illsku mannsins eru engin takmörk sett. Alla ævi upp frá þessu leitar spurningin á huga minn: Hvað hefði gerst ef ég hefði ekki komið nákvæmlega á þessu augnabliki og séð son minn í fangi þessa ókunna manns?