fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

Gauti svarar Sigurði fullum hálsi – „Þessi málflutningur er í góðu samræmi við það viðundur sem Morgunblaðið er orðið“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 28. nóvember 2024 15:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gauti B. Eggertsson er ekki bara bróðir fyrrverandi borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, heldur líka prófessor í hagfræði við Brown-háskólann í Bandaríkjunum. Hann hefur fengið sig fullsaddan á áróðri Sjálfstæðismanna í aðdraganda Alþingiskosninganna þar sem sífellt er látið að því liggja að rekstur Reykjavíkurborgar sé í ólestri undir forystu Samfylkingarinnar. Gauti sýnir fram á að þetta sé hreinlega rangt og að Sjálfstæðisflokknum hafi ekki tekist eins vel til þegar hann var við völd í borginni fyrir þó nokkru síðan.

Gauti hefur birt langan pistil á Facebook þar sem hann vísar til greinar sem fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Sigurður Kári Kristjánsson, skrifaði „í það undarlega viðundur sem Morgunblaðið er orðið í dag“.

Góður drengur skrifar vonda grein

Hann rekur að Sigurður sé góður drengur en góðir drengir geti skrifað vondar greinar. „Jafnvel afspyrnu vondar, og því miður sýnist mér góður drengur skrifa ömurlega vonda grein sem ég las af Facebook-síðu hans.“

Telur Gauti að tilgangurinn með grein Sigurðar sé að vara við ríkisstjórn Viðreisnar og Samfylkingar. Þessu til stuðnings hafi Sigurður bent á Reykjavíkurborg sem hann sagði minna á þrotabú. Þetta fullyrðir Sigurður án þess að færa fyrir því nokkur rök.

„Þessi málflutningur er í góðu samræmi við það viðundur sem Morgunblaðið er orðið, sem fer eftir möntru Göbbels (og Trumps) sem var með þá kenningu að ef þú lýgur einhverju nægjanlega oft, þá trúir fólk því. Við horfum upp á þetta í Bandaríkjunum. Það er óneitanlega ömurlegt til þess að vita að í okkar litla landi virðist kenning Göbbels og Trump, sem Davíð Oddsson virðist nú hafa gert að lífsmottói sínu ganga fullkomlega upp. Ég hef enga trú að Siggi Kári, sá ágæti drengur, hafi farið með rangt mál gegn betri vitund þegar hann slengdi þessu fram án nokkurra röksemda. Hann var búinn að lesa lygina svo oft í Morgunblaðinu að hann var farinn að trúa henni. Svo lepur hver maður um annan þveran upp bullið, þótt enginn virðist hafa skoðað neinar tölur í þessu samhengi, eða yfir höfuð einu sinni sett fram rök sem standast lágmarks skoðun.“

Spútnikk íslenskra stjórnmála

Gauti segir það örvæntingarfullan málflutning að tengja saman rekstur borgarinnar við mögulega frammistöðu Kristrúnar Frostadóttir, fari hún í ríkisstjórn. Fyrir það fyrsta byggi það á þeirri röngu ályktun að borgin sé rekin illa auk þess sem þar er litið fram hjá því hversu öflug kona Kristrún er.

„Staðreyndin er sú að Kristrún er spútnikk íslenskra stjórnmála í dag. Hún talar að mínu mati af meiri skynsemi um efnahagsmál ríkisins en ég man eftir að aðrir stjórnmálamenn hafi gert.
Má ég stinga upp á mjög róttækri, jafnvel hneykslanlegri hugmynd? Hvernig væri nú að skoða gögn um skuldastöðu sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu sem við hljótum að gera ráð fyrir að liggi á bak við fullyrðingu Sigga Kára. Við gætum kannski líka borið það saman við skuldastöðu ríkisins.“

Sigurður birtir með færslu sinni tvær myndir. Annars vegar mynd sem sýnir skuldastöðu Reykjavíkurborgar í samanburði við sveitarfélög þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er við völd. Hin myndin sýnir hver staða borgarinnar var seinast þegar Sjálfstæðisflokkurinn var þar í meirihluta og hvernig staðan hefur þróast í þeim meirihlutum sem Samfylkingin hefur átt hlut í síðan.

May be an image of text

„Og hvað skyldi nú koma í ljós? Sjálfstæðisflokkurinn fór meira en tvöfalt yfir viðmið sveitastjórnarlaga hvað varðar skuldaviðmið þegar hann fékk síðast að sýna snilli sína í fjármálum. Á síðasta ári hans í meirihluta var Íslandsmet slegið þegar skuldaviðmið var meira en tvöfalt þess sem sveitastjórnarlög gera ráð fyrir. Árið 2010 voru engin merki þess að verið væri að snúa skútunni við, skuldaviðmið borgarinnar var 322%, meira en tvöfalt meira en viðmið sveitastjórnarlaga og hafði aðeins batnað um 2% frá síðasta ári þegar það var 324%.“

May be a graphic of text

Skoðanir byggðar á ítrekuðum lygum

Gauti veltir því fyrir sér hvernig Sigurður geti mögulega dregið þá ályktun af þessu að Samfylkingin hafi ekki staðið sig. Líklega hafi Sigurður lesið yfir sig af áróðri Morgunblaðsins og þar með farið að trúa ítrekuðum lygum um stöðuna í borginni. Nefnir Gauti sem dæmi nýlegan fréttaflutning Morgunblaðsins um orlofsuppgjör Dags. Dagur fékk þar greidda út 69 orlofsdaga sem hann átti uppsafnaða eftir 10 ára starf. Morgunblaðið sleppti þó að taka fram að þegar ritstjóri miðilsins, Davíð Oddsson, hætti sem borgarstjóri, þá fékk hann greidda út 93 daga í orlof sem hann hafði safnað upp á skemmri tíma en 10 árum.

Kristrún Frostadóttir sé eldklár hagfræðingur og segist Gauti ekki muna eftir öðrum eins hvalreka hvað varðar efnahagsumræðuna og hefur hann þó kennt hagfræði sjálfur áratugum saman.

„Og að lokum eitt sem er mér hjartans mál. Það liggur skýrt fyrir forgangsröðun flokkanna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á undanförnum áratugum algerlega lagt í rúst íslenska heilbrigðiskerfið svo það er nánast eins og í þriðja heims ríki. Samfylkinging ætlar að setja alvöru peninga í heilbrigðismál og hefur skýrt hvernig það verður fjármagnað. Saga úr daglega lífinu: Mamma fór á bráðamóttöku um daginn. Hún beið eftir lækni í 12 klukkutíma. Þá kom indæl hjúkrunarkona til hennar og sagði henni að skynsamlegast væri að fara heim, sofa og koma svo aftur daginn eftir því að „bráðamótökulæknirinn gæti hvort sem er ekki séð hana fyrr”. Það er kominn tími á langt frí fyrir þennan flokk sem hefur rústað svo mörgum verðmætum okkar sem þjóðar, heilbrigðiskerfinu, framhaldskólakerfinu með fáránlegum skipulagsbreitingum, bankakerfinu, og manni hryllir við tilhugsunina hvað kemur næst.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Sigmundur vill íslenskan Elon Musk til að hagræða í ríkisrekstri – Nefnir tvo athafnamenn sem kæmu til greina

Sigmundur vill íslenskan Elon Musk til að hagræða í ríkisrekstri – Nefnir tvo athafnamenn sem kæmu til greina
Eyjan
Í gær

Orðið á götunni: Miðjustjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Framsóknarflokks

Orðið á götunni: Miðjustjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Framsóknarflokks
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Birgitta segir vont að Píratar hafi orðið að „diet Samfylkingu“ en nú sé þó farið að glitta aftur í pönkið

Birgitta segir vont að Píratar hafi orðið að „diet Samfylkingu“ en nú sé þó farið að glitta aftur í pönkið
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sjúkratryggingar auglýsa eftir rekstraraðilum að hjúkrunarheimilum

Sjúkratryggingar auglýsa eftir rekstraraðilum að hjúkrunarheimilum