Landsréttur hefur staðfest úrskurð um að verða við handtökuskipun pólskra yfirvalda á manni sem dæmdur var fyrir að svíkja pening út úr fólki og selja því rusl. Maðurinn sagðist ekki hafa flúið til Íslands heldur hafa komið hingað til þess að hjálpa foreldrum sínum.
Svæðisdómstóll í Póllandi gaf út handtökuskipunina þann 26. febrúar á þessu ári og barst hún íslenskum yfirvöldum 19. mars. Maðurinn var dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi fyrir fjársvik árið 2021 og á eftir að afplána þá refsingu.
Maðurinn var handtekinn 13. október síðastliðinn og í skýrslutöku sagðist hann kannast við málsatvik. Hann samþykkti hins vegar ekki framsal til Póllands. Var hann settur í farbann til 23. desember til þess að hægt væri að afgreiða málið.
Í skýrslugjöf sagðist maðurinn hafa komið til Íslands vorið 2023 til þess að græða peninga, borga sínar skuldir og óska eftir því að fá að vera undir rafrænu eftirliti. Hann hafi ekki ætlað að leynast pólskum yfirvöldum.
Fyrir dómi sagðist maðurinn hafa flutt til Íslands til að greiða niður skuldir og aðstoða veika foreldra. Hann hafi ekki haft vitneskju um að gefin hafi verið út evrópsk handtökuskipun. Eftir að hann komst að því hafi hann leitað til lögmanns í Póllandi og óskað eftir því að fá refsinguna fullnustaða með rafrænu eftirliti.
Í handtökuskipuninni kemur fram að maðurinn hafi í félagi við annan svikið fé af fólki með því að auglýsa vörur til sölu sem ýmist hafi ekki verið afhentar eða þá að rusl var afhent í staðinn. Buðu þeir til sölu símtæki, húsgögn, garðyrkjuvörur á svokölluðu OLX vefsvæði án þess að hafa þær undir höndum. En sú pólska síða er sambærileg Bland hér á Íslandi.
Sagðist hann aðeins hafa haft milligöngu um fjársvikin. Það er að hann hefði þekkt mann sem vildi selja upplýsingar um bankareikninga gegn greiðslu. Hann hefði haft milligöngu um að þessar upplýsingar kæmust til einstaklinga sem myndu fremja afbrot. Hann viðurkenndi að hafa haft vitneskju um að honum hefði verið gerð refsing áður en hann kom til Íslands.
Ríkissaksóknari tók ákvörðun um að framselja manninn þann 13. nóvember. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðunina 22. nóvember og Landsréttur 27. nóvember.