Verðbólga á Íslandi mælist nú 4,8% og hefur ekki mælst minni síðustu þrjú árin. Verðbólga án húsnæðisliðar mælist 2,7%. Stýrivextir eru þó enn nokkuð háir, eða 8,5% eftir nýlega vaxtalækkun. Gunnar Smári Egilsson, frambjóðandi Sósíalista, segir þessa stöðu galna.
Hann skrifar inn á hóp Sósíalista á Facebook að háir stýrivextir þrátt fyrir verðhjöðnun sýni að samfélagið hafi misst vitið. Engu að síður sé í umræðunni talað um jákvæða þróun.
„Þrátt fyrir að það sé verðhjöðnun á landinu, samkvæmt neysluvísitölu án húsnæðis, þá eru stýrivextir Seðlabankans 8%. Þetta er merki þess að samfélag okkar hefur misst vitið. Verðhjöðnun síðustu þriggja mánaða jafngildir verðhjöðnun upp á 1,8% á ársgrundvelli. Raunvextir stýrivaxta Seðlabankans eru því 10% og hafa aldrei verið hærri. Og raunvextir venjulegra húsnæðislána eru um 12,5%. Þetta viðgengst þótt öllum sé ljóst að engin þjóð stendur undir svona háum vöxtum. Og það hlægilega er, að forystufólk stjórnmálaflokka stígur fram og kynnir þessa stöðu sem árangur. Og fjölmiðlar taka undir.“