Hafnarfjarðarbær hefur brugðist við óánægju íbúa í Hvömmum við því að stórum ökutækjum og vinnuvélum, jafn vel númerplötulausum sé lagt í stæðið við kirkjugarð bæjarins. Eldur kviknaði í mannlausum vörubíl fyrir skemmstu.
DV fjallaði um málið fyrir viku síðan. Það er að íbúar væru orðnir þreyttir á stórum bílum og vinnuvélum sem lagt væri við kirkjugarðinn. Sumir bílarnir hefðu staðið þarna óhreyfðir mánuðum saman. Garðurinn væri að breytast í bílakirkjugarð. Kveikjan að umræðum var að vörubíll brann til kaldra kola á stæðinu en vegna þess að slökkvilið brást skjótt við var komið í veg fyrir að eldurinn breiddist út í nærliggjandi bíla.
Málið var tekið fyrir í umhverfis og framkvæmdaráði bæjarins í gær, miðvikudag, og samþykkt að loka á möguleikann að leggja atvinnutækjum og dráttarkerrum á stæðinu.
Þetta verður gert með því að setja merki sem segir: Bannað að leggja ökutækjum, loka svæðið af með stóru grjóti eða einhverju sambærilegu og að breyta deiliskipulagi kirkjugarðsins þannig að setning sem segi að heimilt sé að leggja stórum bifreiðum á afmarkað svæði verði tekin út.
Á fundinum var einnig samþykkt að grætt verði upp svæðið á milli Hvammabrautar og kirkjugarðsins.