Sullivan hafði hlotið lífstíðarfangelsisdóm vegna morðs sem hann hefur ávallt neitað að bera ábyrgð á. Fyrr í þessum mánuði úrskurðaði dómstóll í Massachusetts í Bandaríkjunum að yfirvöld skyldu greiða honum 13 milljónir dollara, tæplega 1,8 milljarða króna. Michael, sem í dag er 64 ára, var nefnilega saklaus allan tímann.
Sullivan hlaut dóm fyrir morð og vopnað rán árið 1987 en fórnarlambið í málinu var Wilfred McGrath. Lík hans fannst á bak við yfirgefna verslun en lögregla beindi sjónum sínum að Michael eftir að hún komst að því að systir hans hafði verið með fyrrnefndum Wilfred kvöldið áður en hann fannst látinn. Þau tvö höfðu farið í íbúð systurinnar sem hún bjó í með Sullivan.
Annar maður, Gary Grace, var handtekinn í málinu og var ákæra gegn honum látin niður falla þegar hann féllst á að vitna gegn Sullivan.
Árið 2011 fór lögmaður hans fram á að DNA-rannsókn yrði gerð og leiddi hún til þess að ný réttarhöld fóru fram í málinu 2012. Þar var Sullivan sýknaður og honum svo sleppt úr fangelsi árið 2013. Síðustu ár hefur hann barist fyrir því að fá bætur vegna fangelsisvistarinnar og hefur hann nú uppskorið árangur erfiðis síns.
„Það sem skiptir mestu máli fyrir mig er að hafa verið dæmdur saklaus. Peningarnir munu auðvitað hjálpa mér mikið,“ segir hann við bandaríska fjölmiðla.