Bjartmar Leósson, sem gengur undir heitinu hjólahvíslarinn eftir að hafa unnið að því árum saman að endurheimta stolin reiðhjól og annað þýfi, segir að konan sem nam köttinn víðfræga, Diego, á brott úr Skeifunni, sé alræmdur þjófur og ofbeldismanneskja. „Hún á ekki að ganga laus,“ segir Bjartmar í samtali við DV en hann birti eftirfarandi færslu á Facebook:
„Þekki til þeirrar sem stal Diego. Það hafa margir undrast það að hún gangi laus, þar á meðal lögreglan. Hún er mikið í afbrotum og hefur haft uppi ógnandi tilburði. Hef sjálfur séð hana ógna manni með öxi. Heyrði hana svo státa sig af því að hafa ætt inn í Icewear og stolið dýrri úlpu. Svo fékk ég skilaboð í gær frá einni sem sagði mér að hún hafi ógnað starfsfólki í búðinni sinni. Hún er auðvitað mjög veik en er engu að síður með mjög einbeittan brotavilja. Löngu tímabært að einhver grípi í taumana þarna.“
Bjartmar greinir DV frá því að hann hafi einu sinni farið með manni einum heim til konunnar til að endurheimta stolið rafhlaupahjól. Konan hafi tekið á móti þeim með exi í hendinni. Félagi Bjartmars í þessari ferð hefur hins vegar reynslu sem dyravörður og tókst honum að taka konuna til og endurheimta hjólið.
„Samt bombaði hún exinni í hurðina og öskraði á hann. Ég var á neðri stigapallinum og lét lítið fyrir mér fara en heyrði hana svo spyrja hver væri þarna í felum. Ég bara hljóp út.“
Bjartmar segir konuna gjörsamlega stjórnlausa og lögreglumenn sem hafa rætt við hann um hana segjast ekki skilja hvers vegna hún gengur laus. Hún eigi að vera í lokuðu úrræði.
Rétt er að rifja upp tilkynninguna sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti í gær eftir að Diego hafði verið endurheimtur:
„Diego, einn frægasti köttur landsins, er kominn í leitirnar, en hann var tekinn ófrjálsri hendi í Skeifunni um helgina. Margir hafa leitað að Diego frá þeim tíma, ekki síst Dýrfinna, en það eru félagasamtök sem hjálpa týndum gæludýrum og eigendum þeirra. Ýmsar ábendingar bárust Dýrfinnu meðan á leitinni stóð og það leiddi til þess að lögreglan fann Diego í heimahúsi i morgun. Í framhaldinu var Diego færður á lögreglustöðina á Hverfisgötu og var þar í góðu yfirlæti þangað til honum var komið í hendur eigandans. Varla þarf að taka fram að það voru miklir fagnaðarfundir.“