KSÍ auglýsir eftir umsóknum um starf aðalþjálfara U16/U17 landsliða kvenna og aðstoðarþjálfara U19 kvenna (eitt stöðugildi, fullt starf).
Athygli vekur að í auglýsinguni eru „Konur eru sérstaklega hvattar til að sækja um,“ eins og segir á vef KSÍ.
Nokkuð hefur verið rætt um að það vanti konur í þjálfun í knattspyrnu síðustu ár og vill KSÍ reyna að fá konu til að stýra þessu verkefni.
Umsækjendur þurfa að hafa lokið KSÍ A gráðu í þjálfaramenntun og nauðsynlegt er að umsækjandi hafi gott vald á íslensku, ensku og hvers kyns tölvuvinnslu, auk hæfni til að nota tæknibúnað sem KSÍ notar til greiningarvinnu og gagnasöfnunar.
„Hugmyndafræði yngri landsliða er lýst í afreksstefnu KSÍ. Öll landsliðin vinna eftir afreksstefnunni en hafa þó hvert um sig sína hugmyndafræði þar sem m.a. kemur fram leikskipulag og leikstíll liðsins, hlutverk liðsins í heild sinni, hlutverk hverrar línu og hverrar stöðu. Einnig er fjallað um hvaða gildum er unnið eftir á mismunandi aldri,“ segir á vef KSÍ.