Morgunblaðið fjallar um þetta í dag.
Í færslunni velti Brynhildur fyrir sér andlegu jafnvægi Sjálfstæðismanna fyrir kosningar og Snorra Mássonar, frambjóðanda Miðflokksins.
„Eru Sjálfstæðismenn ekki eitthvað aðeins taugaðri en fólk hélt? Kannanirnar alveg að fara með Valhöll?“ sagði hún og deildi svo í athugasemd opnu bréfi Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, til Snorra Mássonar sem vakti athygli á mánudag. „Er þetta ekki fyndið innlegg í taugaáfall Snorra Mássonar?“
Ástríður Jóhannesdóttir, formaður landskjörstjórnar, segist í samtali við Morgunblaðið ekki vilja segja til um það hvort við hæfi sé að lögfræðingur stofnunarinnar standi í pólitísku hnútukasti á samfélagsmiðlum. Mikilvægt sé þó að gætt sé að hlutleysi og óhlutdrægni stofnunarinnar í aðdraganda kosninga. Nefndi hún að Brynhildur væri almennur starfsmaður sem færi ekki með ákvörðunarvald.
Bent er á það í umfjöllun Morgunblaðsins að Brynhildur hafi gegnt trúnaðarstörfum í Samfylkingunni. Tekið er fram í lok fréttarinnar að færsla Brynhildar hafi verið fjarlægð af Facebook eftir að blaðið spurðist fyrir um hana.