Líkur má leiða að því að stórverslunin Costco hér á Íslandi sé að notast við gervigreind eða annars konar forrit til að vippa vörulýsingum sínum yfir á íslensku. Þetta sést skýrt af skrifborðsstól sem verslunin auglýsti á afslætti.
Um var að ræða forláta stól með stillanlegum höfuðpúða. Kostir hans voru þó óvenjulegir. Hann er úr mjúku og endingargóðu PU leðurlíki – sem er nokkuð hefðbundið. Hann er stillanlegur, með stuðning við „mjóhrygg“ og eins er hægt að stilla armana. Síðan er tekið fram: „Má setja í örbylgjuofn“.
Einn meðlimur hópsins COSTCO-gleði á Facebook vakti athygli á málinu og spurði í forundran: „Hver setur stól í örbylgjuofn og hvar fást þannig örbylgjuofnar.“
Auglýsingin vakti mikla lukku meðal aðdáenda verslunarinnar sem þó furða sig á því að Costco fái nú ekki Íslending í þýðingarnar hjá sér. Sumir furðuðu sig jafnframt á fullyrðingunni að stólinn væri staflanlegur. Eins var vakin athygli á því að í enskri lýsingu stólsins komi ekkert fram sem gervigreind gæti mögulega túlkað með þessum hætti.