Fjölmiðlakonan Birna Dröfn Jónasdóttir átti bókaðan veislusal hjá Blackbox Pizzeria á föstudaginn. Enginn hjá fyrirtækinu hafði þó fyrir því að segja henni að fyrirtækið hefði skellt í lás deginum áður. Þessu þurfti Birna að komast að sjálf þegar hún mætti á föstudaginn, með allan veislubúnaðinn og átti von á 40 gestum. Birna rekur raunir sínar í færslu á Facebook.
Þar deilir Birna frétt um lokun fyrirtækisins og bendir á að þar sé tekið fram að um fyrirvaralausa bókun hafi verið að ræða og viðskiptavinir komið að læstum dyrum. Hún rekur að hún hafi verið ein þessara viðskiptavina.
„Ég átti bókaðan veislusal þarna á föstudaginn fyrir veislu sem átti að byrja klukkan 19 og hafði verið bókuð með mjög góðum fyrirvara. Ég mætti og skoðaði salinn á mánudeginum, við ræddum hvenær ég mætti koma og skreyta, hvernig fyrirkomulagið á veislunni væri o.s.frv.
Þegar ég svo mætti á tilætluðum tíma, eftir hádegi á föstudaginn, klyfjuð skreytingum, kareoke-græju, gasblöðrum, photobooth og ég veit ekki hverju og hverju var allt læst og enginn inni. Ég reyndi að hringja um allt og senda pósta en fékk engin svör…um 14:30 náði ég loksins í mann sem tengist þessum stað, hann sagði mér að staðnum hefði verið lokað deginum áður og að ég þyrfti bara að finna annan stað…ekki einu sinni sorry…“
Voru þá góð ráð dýr. Veislan átti að byrja fjórum tímum síðar og Birna í erfiðri stöðu. Enginn salur, enginn matur og engir drykkir fyrir gestina 40. Sem betur fer tókst að redda málum í tæka tíð og veislan heppnaðist vonum framar. Birna veltir því þó fyrir sér hvort það hefði drepið rekstraraðila BlackBox að láta vita.
„Hefði drepið einhvern þarna á BlackBox Pizzeria að láta mig vita? Ekkert eðlilega léleg vinnubrögð að mínu mati“
Ekki liggur fyrir hvort um tímabundna lokun er að ræða eða ekki en forráðamenn félagsins hafa boðað yfirlýsingu í vikunni.