fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Fréttir

Dómara misbauð og tók verjandann á teppið fyrir farsakennda málsvörn og galinn reikning

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 26. nóvember 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 11. nóvember sl. dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum. Það óvenjulega átti sér stað í málinu að dómari tók verjanda málsins á teppið og úthúðaði honum fyrir málsvörn sem var ekki í rökrænu samhengi við sakarefni og fyrir að krefjast málsvarnarlauna sem væru algjörlega úr hófi við umfang málsins.

Málið má rekja til þess að kona leitaði til lögreglu eftir að hafa átt í samskiptum við ákærða. Hún hafði keypt borð og stóla af annarri konu og ákærði afhenti henni þá muni sem hún keypti. Hún hafi svo átt í samskiptum við ákærða á WhatsApp og hann fór í kjölfarið að aðstoða hana við ýmislegt, svo sem við að kaupa mat, elda fyrir hana og tengja fyrir hana uppþvottavél. Dag einn hafi hann sent henni nektarmynd af sofandi dreng í von um að æsa hana upp kynferðislega. Um var að ræða dreng sem hann hafði verið að gæta fyrir aðra konu, þá sem hafði selt borðið og stólana.

Ákærði var handtekinn eftir þessa ábendingu og fundust þrjár myndir af sofandi drengnum á síma hans, en aðalefni myndanna voru kynfæri drengsins og rass. Ákærði neitaði því að annarlegur tilgangur hefði verið að baki myndatökunni. Þegar móðir drengsins gaf skýrslu hjá lögreglu sagðist hún ekki trúa neinu slæmu upp á ákærða. Myndirnar hefðu verið saklausar og teknar úr samhengi.

Farsakenndar afsakanir

Fram kom að við meðferð málsins krafðist verjandi ákærða þess að myndirnar yrðu ekki lagðar fram fyrir dóm – því var hafnað. Eins krafðist hann frávísunar málsins í heild eð að hluta – því var hafnað. Loks krafðist verjandi þess að fá að leiða móður drengsins fram sem vitni en því var sömuleiðis hafnað.

Ákærði bar því við fyrir dómi að móðir drengsins hafði fengið hann til að aðstoða sig, gengið á lagið, kynnst fjármálum hans og náð taki á honum. Hann hafi byrjað að kvarta undan henni við aðra og hún líklega frétt af því. Þá hefði hún fengið aðra konu til að kæra hann fyrir téðar ljósmyndir. Hann neitaði að hafa sent myndirnar, sagðist ekki vita hvernig þær komust í síma hans en grunaði að móðir drengsins hefði komið þeim þar fyrir. Hann hafi verið hræddur við móðurina sem hafi „ætlað að gera allt vitlaust og hótaði honum og ætlað að segja frá því sem hún vissi um hans fjármál“ hann hafi því ekki þorað öðru en að játa í yfirheyrslu hjá lögreglu. Hann neitaði nú sök því konan væri farin af landi brott og hann ekki lengur hræddur við hana. Dómari taldi þetta ekki trúverðuga skýringu og skrifaði í dóm sinn:

„Þá verður að telja einstaklega ótrúverðugt, og hreint út sagt farsakennt að móðir brotaþola, C, hafi mögulega komist í síma ákærða, tekið nektarmynd af syni sínum sofandi, þóst vera ákærði í samskiptum við vitnið B. sem C kvaðst fyrir lögreglu ekki hafa vitað til að væri í samskiptum við ákærða fyrir utan það að hann hefði afhent henni borð, og sent nektarmyndir af syni sínum til B undir því yfirskini að hún væri ákærði.“

Dómar rakti að skýringar ákærða væru fráleitar og var ákærði sakfelldur.

Úthúðaði verjanda fyrir galna málsvörn

Það er ekki á hverjum degi sem dómari fer mörgum orðum um kröfu verjanda um málsvarnarlaun, hvað þá að um slíkt sé fjallað í heilum kafla í niðurstöðu dóms þar sem dómari hreinlega úthúðar verjanda fyrir ófyrirleitni. Dómari í máli þessu rakti að verjandi mannsins, Skúli Hansen, hafi lagt fram tímaskýrslu sem sýni að hann hafi varið 132,83 klukkustundum í málsvörn ákærða. Vinnan fór fram á tímabilinu 23. maí 2022 til þess dags sem málið var dómtekið þann 15. október 2024. Jafnframt áætlaði Skúli sér fjórar klukkustundir vegna dómsuppsögu og til að fara yfir dóm héraðsdóms með ákærða. Samkvæmt tímaskýrslu tók Skúli 26 þúsund krónur fyrir hverja vinnustund og því hljóðaði krafa hans um málsvarnarlaun upp á tæpar 3,5 milljónir án virðisaukaskatts, en tæpar 4,3 með skattinum.

Dómari taldi þetta í engu samræmi við umfang málsins. Hann rakti að Skúli hafi skilað 12 blaðsíðna greinargerð í málinu og haldið ræðu „sem stóð á vel aðra klukkustund við munnlegan flutning málsins fyrir dómi“. Meirihluti ræðunnar hafi þó fjallað um atriði sem féllu utan sakarefnis málsins og voru að mati dómara ekki í „neinu rökrænu samhengi við sakarefnið“.

„Verjandinn lét aftur á móti hjá líða, að mestu leyti, að reifa lagalegan grundvöll málsins, sem rík þörf var á að gera grein fyrir með tilliti til hagsmuna ákærða.“

Fjallaði ekki um það sem máli skipti

Hvorki sakarefni né umfang málsins hafi gefið tilefni til allrar þeirrar vinnu sem Skúli sagðist hafa innt af hendi í málinu og eins hafi þessi vinna varðað að verulegu leyti atriði sem féllu utan við sakarefnið.

„Þá voru sumar af kröfum ákærða undir rekstri málsins til þess fallnar að tefja málið og auka kostnað sem af því leiddi, án þess að tilefni væri til, svo sem krafa hans um frávísun málsins. Á hinn bóginn lét verjandi ákærða hjá líða, eins og áður segir, að flytja málið um lagaatriði, þ.m.t. um það hvort refsiskilyrði þeirra lagaákvæða sem brot ákærða eru talin varða við samkvæmt ákæru, væri fullnægt. Sækjandi málsins reifaði þau atriði hins vegar skilmerkilega og gætti þannig að hlutlægnisskyldu ákæruvaldsins“

Dómari spurði Skúla við munnlegan flutning málsins hversu mikið ákærði hefði, í eigin persónu, verið hafður með í ráðum varðandi vörð sína. Hafi Skúli svarað því til að hann hefði haft samráð við ákærða um hvaðeina sem vörn hans varðaði.

„Þrátt fyrir það, og að teknu tilliti til þess sem að framan hefur verið rakið, sakarefnimálsins og umfang þess, þykir ekki unnt að leggja tímaskýrslu verjanda ákærða að öllu leyti til grundvallar við ákvörðun um málsvarnarlaun hans, enda að mati dómsins ekki hægt að færa rök fyrir því að um sé að ræða eðlilegan sakarkostnað í málinu.“

Þar með taldi dómari hæfilegt að verjandi fengi um 2,34 milljónir í málsvarnarlaun, að virðisaukaskatti meðtöldum. Þetta væri eðlilegri fjárhæð með tilliti til umfangs starfa á rannsóknarstigi og við meðferð málsins fyrir dómi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Kristófer sár og reiður eftir að eggjum var kastað í myndir af frambjóðendum Miðflokksins

Kristófer sár og reiður eftir að eggjum var kastað í myndir af frambjóðendum Miðflokksins
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Martröð í París: Óprúttnir aðilar hirtu rúma hálfa milljón af debetkorti Íslendings – Góðverkið dró dilk á eftir sér

Martröð í París: Óprúttnir aðilar hirtu rúma hálfa milljón af debetkorti Íslendings – Góðverkið dró dilk á eftir sér
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

„Úrvalssveitir“ Rússa sagðar vera veikburða og úreltar

„Úrvalssveitir“ Rússa sagðar vera veikburða og úreltar
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Inga Sæland mest áberandi í kosningamyndbandi sem varar við karlmönnum sem vilji skerða réttindi kvenna

Inga Sæland mest áberandi í kosningamyndbandi sem varar við karlmönnum sem vilji skerða réttindi kvenna