George ók bifreið sinni á ofsahraða eftir A47-hraðbrautinni skammt frá Norwich og tók upp myndbönd af sér og sendi myndskilaboð þar sem hann reyndi að stýra ökutækinu með hnjánum á sér. Þessi heimskupör enduðu þannig að hann ók framan á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt sem konan, Catherine Davies, var í.
George tók upp samtals fimm myndbönd undir stýri í aðdraganda slyssins.
Catherine slasaðist lífshættulega í slysinu og er lömuð fyrir neðan háls, getur ekki andað án aðstoðar og þarf sólarhringsumönnun.
Faðir hennar, Jeremy, segir í samtali við breska fjölmiðla að hann muni aldrei gleyma deginum þegar hann fékk fréttir af slysinu. „Að heyra að dóttir mín myndi mögulega ekki lifa þetta af var hrikalega erfitt,“ segir hann.
Catherine er búin að vera á sjúkrahúsi meira og minna frá slysinu, en hún var útskrifuð af mænudeild Princess Alexandra-sjúkrahússins í Sheffield fyrr í þessum mánuði.
Lögreglan á svæðinu hefur hrint af stað vitundarvakningu í kjölfar slyssins og er markmiðið að vekja athygli á þeim miklu hættum sem felast í því að nota farsíma undir stýri.
„Catherine og fjölskylda hennar hafa leyft okkur að deila sögu hennar í þeirri von að þetta gerist ekki aftur,” segir Callum Walchester, lögreglufulltrúi á svæðinu.
Fyrir slysið var Catherine, sem nú er 51 árs, mjög heilsuhraust og starfaði hún meðal annars í verslun og sem einkaþjálfari.
„Hún mun aldrei anda sjálf aftur, hún mun aldrei finna bragðið af mat aftur og hún mun aldrei geta faðmað tíu ára son sinn aftur,” segir Jeremy, faðir hennar.
Meðfylgjandi er myndband frá Daily Mail sem varpar ljósi á aðdraganda slyssins.