Undanfarið hefur læknasamfélagið farið háværum og hörðum orðum um fyrirtæki á borð við Greenfit og starfsemi þess. Greenfit er fyrirtæki sem sérhæfir sig í heilsufarsmælingum en viðskiptavinir sem þangað leita geta farið í svokallaða ástandsskoðun, þar sem allsherjar mat er lagt á heilsu fólks, blóðmælingar framkvæmdar og hin ýmsu próf þreytt.
Lukka hefur sjálf talað opinskátt um hennar upplifun og hvernig hún og hennar samstarfsfólk hefur upplifað mikinn mótbyr frá læknasamfélaginu. Gagnrýnin hefur meðal annars snúist um það að heilbrigðiskerfið anni ekki gríðarlegu auknu magni af niðurstöðum rannsókna sem engin þarf var á að framkvæma.
Alma Möller, landlæknir, varaði við starfsemi Greenfit í Kastljósi RÚV og sagðist Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, líta blóðmælingar Greenfit alvarlegum augum.
Áslaug Arna, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skrifaði harðorða grein þann 16. nóvember þar sem hún skaut föstum skotum á Ölmu, sem er í framboði fyrir Samfylkinguna. Hún hélt því fram að nýsköpun á sviði heilbrigðismála væri til þess fallin að létta álagi á opinbera heilbrigðiskerfið og bæta þjónustu við landsmenn. Hins vegar hafi Alma sett sig á móti slíkum framförum. Nefndi Áslaug sem dæmi að embætti landlæknis hafi synjað fyrirtækjunum Greenfit og Intuens um leyfi til að „bjóða nýjungar í þjónustu til landsmanna“. Annars vegar er um að ræða blóðmælingar og hins vegar myndgreiningar án sérstakrar tilvísunar frá lækni.
Stella Rún Guðmundsdóttir, sérnámslæknir í lyflækningum, sagði grein Áslaugar varpa ljósi á vanþekkingu hennar á heilbrigðismálum og fáfræði. Fleiri læknar stigu fram og sögðust vera á sama máli.
Það er því óhætt að segja að málið hafi ollið miklum usla undanfarið en nú hefur Lukka ritað nýjan pistil á Vísi og rifjar upp hennar fyrstu kynni af Áslaugu.
„Ég sá Áslaugu Örnu fyrst þegar hún kom með systur sína, Nínu, að borða á veitingastaðnum mínum Happ. Sennilega kom hún þangað þar sem aðgengi fyrir hjólastóla var gott og vonandi hefur henni líka þótt maturinn góður.
Það var líka starfsmaður hjá mér í Happ á þessum tíma sem vann í aukavinnu sem aðstoðarstúlka Nínu. Hún sagði mér frá því að henni þætti gefandi og gott að aðstoða Nínu og hún hafði áhyggjur af því að móðir þeirra systra væri veik af krabbameini og fjölskyldan ætti því erfitt um þessar mundir. Þetta hefur verið árið 2012 og móðir Áslaugar og Nínu lést seint á því ári.
Ég dáðist úr fjarlægð að nánd og jákvæðni þeirra systranna en ég þekkti þær ekki neitt,“ segir Lukka.
„Sennilega var það vegna þessarar innsýnar í þeirra líf sem mér blöskraði það mótlæti sem átti eftir að mæta Áslaugu fyrir það eitt að segja sína skoðun upphátt. Henni varð það á 22 ára gamalli að segja skoðun sína á því að henni fyndist að það ætti að vera hægt að kaupa hvítvín á sunnudögum þrátt fyrir heilagleika sunnudagsins í augum þjóðkirkjunnar. Fyrir þessa skoðun mátti þessi skelegga unga kona þola fúkyrðaflaum.
Hún var meðal annars kölluð heilalaust sjálfstæðisfóstur, vitskert snobbtík og faggabarn. Öllu þessu tók hún með stóískri ró og hrósaði jafnvel fólki fyrir hugmyndaauðgi í nafngiftum en bætti jafnframt við: „Það er bara óskandi að fólk geti rökrætt hluti á málefnalegum grundvelli”. Nú 12 árum síðar tek ég undir þessi orð Áslaugar Örnu.“
Lukka segir þær ekki þekkjast persónulega en að þræðir þeirra hafi nú skarast á. „Henni varð aftur á. Hún hafði skoðun. Það er ekki leyfilegt í heimi sumra lækna (sumra lækna nb!!) að hafa skoðun á heilbrigðismálum. Áslaug Arna leyfði sér að benda á staðreyndir sem vill svo til að tengjast mínu fyrirtæki Greenfit að hluta til,“ segir hún og bætir við að fyrirtækið hafi verið stofnað með það markmið að leiðarljósi að láta gott af sér leiða og hjálpa fólki að fjölga heilbrigðum æviárum.
„Áslaug Arna skilur mikilvægi fjölbreyttra lausna og kemur því á framfæri í blaðagrein. En þá fer af stað bylgja af reiðum læknum sem kalla Áslaugu Örnu fáfróða. Þau segja skrif hennar skelfileg og saka hana um vanþekkingu. Hún má ekki hafa skoðun á heilbrigðismálum því hún er bara lögfræðingur og ráðherra,“ segir Lukka, sem er sjálf lærður sjúkraþjálfari.
„Það kann að vera að Stella sjúkrahúslæknir, Alma Möller og fleiri af þeim læknum sem tjáðu sig á þennan hátt séu einungis að gera það í pólitískum tilgangi og finnist það réttlæta skrifin.“
Lukka segir að fólk eigi rétt á því að ákveða sjálft hvort það vilji sinna forvörnum og skilja heilsuna sína betur.
„Sjálfsákvörðunarréttur fólks til að fá upplýsingar um heilsuna á meðan það er heilbrigt er mikilvægur og getur hjálpað fólki að koma í veg fyrir sjúkdóma.
En það er einhver tregða hjá þröngum hópi lækna við að sleppa tökunum. Einhver hræðsla við að viðurkenna að þeir þurfa ekki einir að bera ábyrgð á heilsu landsmanna. Landsmenn mega vel gera það sjálfir.“
Lukka segir suma lækna vera í rógsherferð gegn henni. „Ítrekað hafa læknar sem eiga það sameiginlegt að þekkja ekki til starfshátta okkar borið okkur sökum sem ekki eru rök fyrir. Í lokuðum hópum lækna á Facebook hafa gengið færslur um Greenfit sem eru hreinlega ósannar,“ segir hún.
„Ég hef velt því fyrir mér hvað búi eiginlega að baki. Er skortur á sjúklingum? Hafið þið áhyggjur af því að fólk sé að bæta heilsu sína með lífsstílsbreytingum? Er þetta öfund því okkur gengur afar vel að hjálpa fólki að afstýra vandamálum og bæta líðan? Eða er þetta allt byggt á vanþekkingu á okkar starfsemi?“
Lukka segir að það hafa yfir hundrað læknar og hjúkrunarfræðingar komið í ástandsskoðun í Greenfit og farið fögrum orðum um starfsemina.
„Mér finnst ekki réttlætanlegt að Áslaug Arna sem manneskja verði fyrir árás sterkrar stéttar heilbrigðisstarfsfólks fyrir það eitt að virða mikilvægi nýsköpunar og fjölbreyttra lausna fyrir kerfið. Sama hvar við stöndum í pólitík. Mér finnst það heldur ekki réttlátt að ég og mitt starfsfólk sitji undir ásökunum nokkurra lækna um að kunna ekki að lesa úr niðurstöðum mælinga viðskiptavina okkar sem við leggjum okkur einlæglega fram um að hjálpa á allan þann máta sem okkur er mögulegt. Ég hef menntun í sjúkraþjálfun frá læknadeild Háskóla Íslands og það hefur gefið mér góðan grunn og gagnrýna hugsun sem gerir mér kleift að svalastöðugum þekkingarþorsta í lestri rannsókna og fræðigreina. Þannig verður maður góður í sínu fagi. Með auðmýkt og stöðugri viðleitni til að vera sífellt að bæta sig.“
Hægt er að lesa pistilinn í heild sinni hér.