Marius er fóstursonur Hákons krónprins og þrátt fyrir að Marius gegni engu hlutverki innan konungsfjölskyldunnar, þá er hann hluti af henni og hegðun hans skaðar fjölskylduna og traust almennings á konungdæminu.
Marius situr nú í gæsluvarðhaldi, grunaður um tvær nauðganir og fleiri afbrot.
Atak sagði í samtali við B.T. að framganga Hákons krónprins hafi ekki bætt stöðuna. Hákon ræddi við fréttamenn á Jamaíka í síðustu viku á sama tíma og gæsluvarðhaldskrafan yfir Marius var tekin fyrir hjá undirrétti í Osló.
Hákon var spurður hversu alvarlegt hann telji mál Marius vera. Þessu svaraði hann: „Ég helt að Marius standi frammi fyrir alvarlegum ásökunum og að réttarvörslukerfið verði að takast á við þær. Lögreglan og dómstólarnir verða að fá að takast á við þetta og ég treysti því að það verði gert á viðeigandi hátt. Við sem fjölskylda höfum verið mjög upptekin af að Marius þurfi að fá hjálp. Við höfum lengi unnið að því að koma honum á stað þar sem hann getur fengið meiri hjálp varðandi meðferð og endurhæfingu.“
Þetta segir Atak ekki nægilegt því að Hákon hafi ekki minnst einu orði á fórnarlömbin, hafi bara sagt að hann hugsi til Mariusar og sé viss um að hlutirnir komist í lag á nýjan leik. „Hann hefði fyrst og fremst átt að sýna samkennd og samúð með fórnarlömbunum,“ sagði hann.
„Í þessu máli er Marius „æxlið“. Það er skýr munur á stofnun og fjölskyldumeðlimi og það er erfitt að taka beina afstöðu gegn honum en hirðin hefði geta verið með meira jafnvægi í ummælum sínum og sýnt fórnarlömbunum samúð. Það er það mikilvægasta þegar Marius er brotamaðurinn, því annars glatast stuðningur almennings,“ sagði Atak.