Åge Hareide hefur ákveðið að hætta sem þjálfari A landsliðs karla og hefur hann því látið af störfum að eigin frumkvæði. Hareide tók við liðinu af Arnari Þór Viðarssyni í apríl 2023 og stýrði því í alls 20 leikjum. KSÍ þakkar Åge fyrir hans störf og óskar honum alls hins besta.
Framtíð Hareide hafði lengi verið til umræðu og samkvæmt heimildum 433.is var það til alvarlegrar skoðunar að segja upp samningi norska þjálfarans.
Hareide stýrði liðinu í 18 mánuði en hann tók við liðinu af Arnari Þór Viðarssyni.
Leit að nýjum þjálfara er hafin. Næsta verkefni A landsliðs karla er í mars þar sem liðið mætir Kósovó í umspilsleikjum um sæti í B-deild Þjóðadeildar UEFA.
Arnar Gunnlaugsson og Freyr Alexandersson eru mest orðaðir við starfið.
Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ: „Ég vil byrja á því að þakka Åge fyrir hans góðu störf og óska honum velfarnaðar í framtíðinni. Á tíma hans með liðið hafa margir leikmenn tekið stór skref, leikmenn sem eiga framtíðina fyrir sér með landsliðinu. Við munum vanda til verks næstu vikur og mánuði við leit að nýjum þjálfara.“