Fyrrum glamúrfyrirsætan Kelly Brook hefur í gegnum tíðina opnað sig um baráttu sína við ófrjósemi, en hún segist í dag hafa tekið ákvörðun um að vera barnlaus og segist sátt við þá niðurstöðu.
„Ég er í raun barnlaus að eigin vali, sem stendur. Þetta er ekki eitthvað sem við sáum fyrir okkur en ég held að þetta ætti ekki að vera tabú-umræða,“ sagði Brook í samtali við The Sun on Sunday.
„Ég hef orðið þunguð og gengið í gegnum fósturmissi og ég veit hversu mikið áfall slíkt er og hvað þetta er átakanlegt fyrir fólk og ástarsambönd. Ég hef gengið í gegnum þetta með fyrri mökum og þetta er erfitt. Ég horfi nú á þetta fallega líf sem ég á með maka mínum í dag og hvernig við sitjum ekki lengur uppi með þetta þunga farg.“
Brook er í dag gift Jeremy Parisi og þau kepptu nýlega í þáttunum Celebrity Race Across the World. Þau eru líka að gefa út örþáttaröð, La Vita Italiana þar sem þau ferðast um Ítalíu og verja tíma með fjölskyldu Parisi.
Brook segist að það sé ekki auðvelt að vera foreldri og hún segist því þakklát að þetta hafi ekki orðið hennar raunveruleiki og hún geti í dag notið lífsins á þessarar ábyrgðar.
„Ég er umkringd fjölskyldum sem eiga börn og ég get séð að það færir fólki mikla hamingju en ég get líka sé að þessu fylgir töluverð streita. Jeremy og ég elskum að verja tíma með fjölskyldu, virkilega, en við elskum líka að ferðast og gera hluti upp á okkar eigin spýtur. Við erum ekki að reyna að eignast barn, við höfum ekki farið í glasafrjóvgunarpakkann. Við höfum ekki einu sinni kynnt okkur það og ég held að við séum lukkulegri fyrir vikið, ef ég á að vera hreinskilin.“
Fyrrum fyrirsætan veltir því fyrir sér hvort hana hafi yfir höfuð langað í börn eða hvort hún hafi verið að láta undan þrýstingi samfélagsins á konur.
„Mér finnst hugrakkt af mér, sem konu, að viðra þessa skoðun. Stundum hugsa ég til baka og velti því fyrir mér hvort ég hafi yfir höfuð viljað þetta. Kannski var ég bara að láta undan því þess var ætlast af mér. Þetta var bara eitthvað sem allir gera.“
Hún og maður hennar ákváðu þess í stað að fá sér hund sem þau elska.