Fertug íslensk kona er í haldi lögreglu á Tenerife vegna gruns um hrottalega árás á tengdamóður sína og mágkonu á föstudagskvöldið. Vísir greindi fyrst frá málinu en þar kemur fram að hótelherbergið þar sem árásin er talin hafa átt sér stað hafi verið þakið blóði.
Konan situr í gæsluvarðhaldi ytra en málið verður fer fyrir dóm síðar í dag þar sem dómari mun taka afstöðu til áframhaldandi gæsluvarðhalds.
Konan var stödd í vetrarfríi erlendis ásamt stórfjölskyldu sinni. Samkvæmt lögregluskýrslu komst konan skyndilega í uppnám því að barnungur sonur hennar var enn á fótum kl.23.30 og það endaði með því að hún réðst fyrirvaralaust á mágkonu sína og beitti hana hrottalegu ofbeldi. Þegar tengdamóðirin reyndi að skakka leikinn réðst konan sömuleiðis á hana, hrinti í gólfið og mögulega kýlt hana.
Þá hrinti konan sömuleiðis tengdaföður sínum í gólfið en hann hefur ekki lagt fram kæru vegna málsins.
Að endingu kom bróðir konunnar á vettvangi og náði að róa systur sína niður og fara með hana af vettvangi. Fram kemur í skýrslu lögreglu að konan þjáist af geðhvarfasýki sem geri hana árásargjarna. Hún er á lyfjum vegna sjúkdómsins.
Hin handtekna hefur áður komist í kast við lögin hérlendis og hefur verið sakfelld fyrir eignaspjöll, akstur undir áhrifum og árás á lögreglumann.