Maðurinn var í flúðasiglingum á eyjunni með hópi fólks þegar hann rann á blautu grjóti í Franklin-ánni í suðvesturhluta Tasmaníu. Ekki vildi betur til en svo að hann festi annan fótinn kyrfilega í þröngri sprungu ofan í ánni. Reyndi maðurinn eins og hann gat að losa sig en allt kom fyrir ekki.
Að lokum var brugðið á það ráð að kalla til björgunarsveitir á svæðinu sem reyndu einnig að losa hann með þar til gerðum búnaði. Þar sem áin var straumþung og fóturinn að stóru leyti undir vatni reyndist það þrautin þyngri og haggaðist fóturinn ekki sama hvað þeir reyndu.
Þegar maðurinn hafði setið fastur í ánni í um tuttugu klukkustundir var hann orðinn býsna þreklítill og var því brugðið á það ráð að fjarlægja fótinn fyrir neðan hné. Hann var fluttur með þyrlu á sjúkrahús og er ástand hans sagt alvarlegt.
Callum Herbert, fulltrúi lögreglu á svæðinu, segir að björgunaraðgerðin hafi verið sú lang erfiðasta sem hann hefur komið að á ferlinum.