Guðbrandur er í viðtali í Morgunblaðinu í dag ásamt öðrum oddvitum flokkanna í Suðurkjördæmi og í viðtalinu við Guðbrand kemur meðal annars fram að það sé hans skoðun að Viðreisn eigi að gera þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB að skilyrði fyrir ríkisstjórnarþátttöku.
Tekur hann þó sérstaklega fram að engin umræða hafi farið um það innan flokksins hvort það ætti að vera skilyrði en þetta sé hans bjargfasta skoðun. Bent er á það í umfjöllun Morgunblaðsins að Samfylkingin sé svipaðrar skoðunar um ESB en hafi þó bent á að önnur mál séu brýnni á þessum tímapunkti.
Guðbrandur nefnir Pírata þegar hann er spurður hvaða flokkur gæti mögulega verið þriðja hjólið í hugsanlegu samstarfi eftir kosningar. Þá segir að það sé ESB-taug í Framsókn sem væri hugsanlega hægt að virkja.
Bæði Píratar og Framsókn hafa átt í vök að verjast í skoðanakönnunum að undanförnu og í könnun Prósents, sem kynnt var síðastliðinn föstudag, mældust Píratar með 6,7% fylgi eftir að hafa verið undir 5 prósentum í nokkrum könnunum þar á undan. Í sömu könnun mældist Framsókn með 4,4% fylgi. Viðreisn og Samfylkingin eru í góðri stöðu og eru langstærstu flokkarnir samkvæmt skoðanakönnunum.