Bretar og Bandaríkjamenn veittu Úkraínumönnum nýlega heimild til að nota flugskeyti, sem ríkin hafa gefið Úkraínumönnum, til árása á rússneskt landsvæði.
Í umfjöllun Mirror um málið kemur fram að Úkraínumenn hafi nýtt sér heimildina til að nota breskt Storm Shadow flugskeyti, til árása á rússnesku landsvæði, í fyrsta sinn á miðvikudag í síðustu viku.
Flugskeytinu var skotið á stjórnstöð rússneska hersins í Maryino í Kúrsk. Valery Solodchuk, hershöfðingi, féll í henni að því að talið er auk 18 lægra settra herforingja. Global Defense Corp segir að 500 norðurkóreskir hermenn hafi einnig fallið í árásinni.
Árásin reyndist Rússum því mjög dýrkeypt og gæti skýrt af hverju þeir skutu ofurhljóðfráu flugskeyti á borgina Dnipro daginn eftir.
Talið er að um 10.000 norðurkóreskir hermenn hafi verið sendir til Rússlands til að berjast við hlið rússneskra hermanna og því er ljóst að ef rétt er að 500 af þeim hafa fallið í þessari árás, þá er það þungt högg fyrir Rússa.