Lögreglan var auðvitað kölluð á vettvang og hóf hún þegar leit að JonBenét og bréfið var rannsakað. Síðar um daginn fann faðir JonBenét, John Ramsey, lík dóttur sinnar í kjallaranum. Hún hafði verið kyrkt og það hafði blætt úr hennni. Líkið lá á hvítu laki.
Í nýju viðtali við People lýsir John yfir óánægju sinni með vinnubrögð lögreglunnar en biðlar um leið til hennar. „Við grátbiðjum lögregluna um að leggja vinnu í þetta. Það eru háþróaðar DNA-rannsóknarstofur, sem vilja gjarnan hjálpa og telja sig geta komið hreyfingu á málið,“ sagði hann.
Hann er þarna að vísa til þess sem fannst á morðvettvanginum, þar á meðal er fyrrgreint bréf en einnig handgert aftökutæki sem kyrkir eða hálsbrýtur fórnarlambið en þetta tæki var notað til að bana dóttur hans.
John segir að lögreglan í Boulder í Colorado hafi ítrekað hafnað því að láta leita að DNA á þessum munum og fleiri.
„Ef lögreglan í Boulder verður áfram með rannsókn málsins á sínu forræði, þá leysist það ekki. Punktur,“ sagði hann.
Viðtalið við hann var birt í tengslum við nýja heimildarmyndaþáttaröð Netflix: „Cold Case: Who Killed JonBenét Ramsey?“. Í þáttunum er kafað ofan í þau mistök sem John segir að lögreglan hafi gert við rannsókn málsins.
JonBenét var þekkt í Bandaríkjunum því hún hafði sigrað í fjölda fegurðarsamkeppna.