fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Bókaspjall: Tvær ólíkar spennusögur

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 24. nóvember 2024 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er með bókmenntirnar eins og lífið að fjölbreytnin er takmarkalaus. Það endurspeglast í tveimur bókum í jólabókaflóðinu sem ég hef verið að lesa undanfarnar tvær vikur, spennusögurnar „Hulda“ eftir Ragnar Jónasson og „Dauðinn einn var vitni“ eftir Stefán Mána. Báðir teljast til vinsælustu höfunda landsins, og meðal langvinsælustu spennusagnahöfundanna, en þessar nýju bækur þeirra eru jafnólíkar og dagur og nótt.

Ragnar er öðrum höfundum fremri í að smíða ráðgátur sem ganga listilega vel upp og hann verður sífellt slyngari við þá iðju. Í „Huldu“ er barn numið á brott af heimili fjölskyldunnar snemma á aðfangadag árið 1960 og ekkert er vitað um afdrif þess allt þar til árið 1980 þegar óvænt vísbending leiðir til þess að rannsókn málsins er tekin upp á ný.

Sjá einnig: Merkilegar sannsögur og dýrlegt smásagnasafn

Rannsóknarlögreglukonan Hulda, þekkt persóna úr fyrri verkum Ragnars, fær það verkefni að leysa gátuna í kjölfar þess að leikfangabangsi barnsins finnst norður í Húnavatnnssýslu. Þar virðast íbúar í fámennri sveitabyggð í fyrstu ekki hafa nein tengsl við þetta mál en annað kemur á daginn eftir því sem rannsókn Huldu vindur fram.

Sagan er feikilvega vel fléttuð og lausn ráðgátunnar er afskaplega heilsteypt og skynsamleg – og umfram allt fullkomlega ófyrirsjáanleg.

Hulda er líklega ein af betri bókum Ragnars. Eins og í fyrri bókum glímir Hulda við mikið karlaveldi innan lögreglunnar enda gerist sagan fyrir hátt í hálfri öld síðan. En unga lögreglukonan Álfrún, sem fer í rannsóknarferðina norður í land með Huldu sem undirmaður hennar, kemur með nýja og áhugaverða vídd inn í þá togstreitu og virðist um tíma stefna í harða samkeppni við Huldu um vegtyllur.

Íslenskur vetrarkuldi og einangrun í strjálbýli eru bestu sviðsmyndirnar fyrir söguefni Ragnars, sem hann nýtir til að skapa þrúgandi andrúmsloft og engin vöntun er á því í þessari nýju sögu hans.

Morð án ástæðu

Í sögu Ragnars er gamall glæpur gerður upp en í sögu Stefáns Mána, „Dauðinn einn var vitni“, reyna Hörður Grímsson rannsóknarlögreglumaður og félagar að afstýra yfirvofandi glæp. Sagan er geysilega hröð og magnaðar senur átaka og eltingaleiks eru listilega dregnar upp.

Framin eru tilgangslaus morð sem hafa á sér áferð hryðjuverka en enginn pólítískur tilgangur er að baki morðæði mannsins sem í hlut á, dularfulls einfara sem telur sig eiga sökótt við fjölskyldu sína annars vegar og konu sem hann hefur eltihrellt hins vegar (og eiginmann hennar). Ég átti dálítið erfitt með að sjá tilganginn í framferði hans, þ.e. löngunina eftir athygli og að fremja glæp gegn samfélaginu, því hatur hans er mjög persónulegt og beinist að ákveðnu fólki. Þessi upplifun spillir þó ekki lestraránægjunni en mér hefði fundist það gefa sögunni meiri tilgang og erindi ef öfgafull hugmyndafræði lægi að baki ódæðisverkunum, af nægu slíku er að taka.

Aðalpersónan, Hörður Grímsson rannóknarlögreglumaður, verður skemmtilegri með hverri bók Stefáns Mána og í þessari sögu eru óborganlegar lýsingar á athyglisbresti hans. Togstreitan á milli fjölskyldulífsins og þarfar Harðar fyrir óreiðu og einveru magnast með hverri bók og er orðin jafnmikill spennuvaldur og voðaverkin sem framin eru í bókunum. Maður óttast ekkert síður um hjónaband Harðar en líf og limi persónanna.

Ég sagði að þessar tvær bækur væru eins ólíkar og dagur og nótt, en tvennt eiga þær sameiginlegt. Þær spila báðar á samfélagslegan ótta. Atburðirnir í þeim eru óvenjulegir en gætu samt hæglega gerst. Stefán Máni dregur upp áhugaverða og ítarlega mynd af því hvernig hriktir í öryggiskerfum samfélagsins þegar morðóður maður  lætur til skarar skríða á almannafæri. Ragnar sýnir okkur inn í martröð hvers foreldris og segir frá glæp sem því miður er ekki fordæmalaus í þessu samfélagi.

Tvær magnaðar og ólíkar spennubækur að baki og ég er í þeim öfundsverðu sporum að vita ekki alveg hvaða bók ég ætla að lesa næst. Af nógu er að taka og ég hlakka til að velja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2
Fókus
Fyrir 4 dögum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“